Fréttir

Körfubolti | 26. október 2006

Mikilvægur sigur hjá stelpunum í Röstinni

Keflavíkurstelpur unnu fyrsta nágrannaslag vetrarins í Röstinni í Grindavík.  Fyrir tímabilið var liðunum spáð mjög svipuðu gengi í deildinni, Keflavík 2 sæti og Grindavík því þriðja.  Sigurinn var því mikilvægur sérstalega með það það í huga að leikið var í Grindavík. Fyrir leikinn var ljóst að Birna Valgarðsdóttir léki ekki með og í raun verður hún ekki með í óákveðinn tíma vegna meiðsla. Eins og það væri ekki nóg, þá voru þær Kesha, Bryndís og María Ben allar með flensu en léku samt með. 

Leikurinn var hraður og spennandi þar sem liðin skiptust á því að hafa forystu og var hann vel leikinn af beggja hálfu. Tamara Bowie fór hamförum í fyrsta leikhluta þar sem hún gerði 13 af 19 stigum Grindavíkur í leikhlutanum þar sem þær gulu leiddu að loknum fyrsta leikhluta 19-18.

''Snemma brugðu Keflvíkingar á það ráð að skipta ört um varnir, fara úr maður á mann vörn í svæðisvörn ásamt því að pressa og tókst þeim nokkrum sinnum að rugla Grindavík í ríminu. Í öðrum leikhluta var Bryndís Guðmundsdóttir sett á Bowie og tókst henni að halda Bowie í aðeins sex stigum í leikhlutanum og staðn því 41-43 fyrir Keflavík í hálfleik. Heimakonur komu þó ákveðnari til þriðja leikhluta og unnu þær leikhlutann 19-15 og staðan því 60-58 fyrir Grindavík fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Fjórði leikhluti var svo æsispennandi þar sem Grindavík komst í 63-60 en þá tók við frábær kafli hjá Keflavík sem breyttu stöðunni í 63-71 á skömmum tíma. Grindvíkingar reyndu að saxa á forskotið en komust ekki nær en þriggja stiga mun. Þegar sekúnda lifði leiks var staðan 69-71 fyrir Keflavík og brotið var á Margréti Köru Sturludóttur sem hélt á vítalínuna og hitti úr fyrr vítinu og breytti í stöðunni í 69-72. Margrét Kara brenndi af síðara vítinu og tíminn reyndist of naumur fyrir Grindavík til þess að freista framlengingar og Keflavík fagnaði því öðrum sigri sínum í röð í deildinni.

TaKesha Watson var stigahæsti leikmaður vallarins í kvöld með 35 stig, tók 8 fráköst og stal 6 boltum. Hjá Grindavík gerði Tamara Bowie 33 stig, tók 14 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. María Ben Erlingsdóttir gerði 17 stig hjá Keflavík og Hildur Sigurðardóttir gerði 14 stig fyrir Grindavík''   vf.is

Tölfræði leiksins

Skemmtilegt viðtal við Agga aðstoðarþjálfara  á karfan.is

Agnar Mar Gunnarsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkurkvenna, var að vonum ánægður með sigurinn gegn Grindavík í gær og sagði að það hefði verið leikgleðin sem skilaði sigrinum.,,Við vorum að keyra meira að körfunni í gærkvöldi heldur en við gerðum gegn þeim í Powerade bikarnum og þá var leikgleðin mun meiri. Það hefur verið gaman að mæta á æfingar að undanförnu því stelpurnar hafa trú á því sem þær eru að gera og hafa gaman af,” sagði Agnar í samtali við Karfan.is.  Keflavík mætir ÍS á mánudag og á Agnar von á hörkuleik. ,,Við förum í þann leik til að sigra og eins og liðið okkar er í dag þá gerir ég ráð fyrir Keflavíkursigri. Við getum vel verið besta liðið á landinu ef við höldum áfram á þessari braut sem við erum nú.”  Keflvíkingar urðu fyrir miklu áfalli á mánudag þegar Birna Valgarðsdóttir meiddist á æfingu og verður frá það minnsta næsta mánuðinn. ,,Við þjöppum okkur bara saman en Birna er stór hlekkur í liðinu en nú verða yngri stelpurnar bara að stíga upp því tækifærið þeirra er komið,” sagði Agnar að lokum.

 

 

 

Aggi og Jonni mjög samstíga á hliðarlínunni :)