Fréttir

Milka áfram í Keflavík
Karfa: Karlar | 22. maí 2022

Milka áfram í Keflavík

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur, KKDK, hefur komist að samkomulagi við Dominykas Milka þess efnis að uppsögn á samningi leikmannsins verði dregin til baka. Mun hann þar að leiðandi leika áfram í búningi Keflavíkur á næstu leiktíð hið minnsta. Milka endaði síðasta tímabil með 15 stig og 10 fráköst að meðaltali í leik í þeim 27 leikjum sem hann lék en hann leiddi liðið í fráköstum. Talsverð óvissa ríkti um ástæður uppsagnarinnar þegar ný stjórn tók við stjórnartaumum hjá KKDK og var því sett í forgang að ræða við leikmanninn. Það var strax ljóst á þeim samtölum að báðir aðilar höfðu áhuga á því að halda samstarfinu áfram. Var það því sameiginleg ákvörðun nýrrar stjórnar og Dominykas Milka að uppsögnin yrði dregin til baka og Milka héldi áfram sem leikmaður Keflavíkur. Auðvitað hefur óvissan ekki verið góð, hvorki fyrir deildina né Milka sjálfan. Þykir því rétt biðja hlutaðeigandi aðila afsökunar um leið og horft er fram veginn með þau sameiginlegu markmið að gera eins vel á næsta tímabili og hugsast getur með gleði og skemmtun að vopni.

 

Dominykas Milka segist vera gríðarlega sáttur með þessa lausn, hann hafi viljað spila fyrir Keflavík og því hafi hann verið þakklátur þegar ný stjórn hafi viljað setjast niður og ræða málin.  “Over the last 3 years there have been some great times and there have been some tough times but now it is time to close this chapter and move forward. I and the new board spoke about the place where Keflavik basketball should be and we had the same vision so I am excited to start this new chapter for Keflavik basketball. It’s time to leave Covid seasons behind and start with a fresh mindset!”

 

Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður Keflavíkur, kvaðst ánægður með að Milka hafi verið tilbúinn að samþykkja að uppsögnin yrði dregin til baka og hann myndi taka slaginn með Keflavík áfram. “Ég er mjög glaður með þessa niðurstöðu. Milka hefur verið burðarás í Keflavíkurliðinu sl. þrjú ár og gert vel. Við vitum öll hvað býr í honum sem leikmanni og hann veit það líka sjálfur. Ætlun okkar sem liðs er að gera betur en á sl tímabili og ég veit það fyrir víst eftir samtöl mín við Milka að ætlun hans er líka að gera betur. Það er flott að það sé komin niðurstaða í þetta mál. Nú er stefnan bara sett fram á við. Það er bjargföst trú okkar að við getum náð langt með þetta lið og fært samfélaginu bæði gleði og árangur. Þar mun mæða mikið á Milka sem fyrr og efast ég ekki í mínútu um að hann muni standast þær væntingar sem til hans eru gerðar.”