Minnibolta stelpur sigruðu fjölliðamótið um helgina
Helgina 4.og 5. mars fór fram í Keflavík þriðja fjölliðamótið hjá Minnibolta Kvenna. Keflavík lék í A-riðli í þessum flokki ásamt KR, Grindavík, Njarðvík og Hamar/Selfoss.
Stelpurnar byrjuðu helgina með því að sigra KR 40-31. Gaman var að sjá hversu góða vörn stelpurnar voru að spila og leikskilningurinn er allur að koma hjá þeim. Næsti leikur var svo við Grindavík. Stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel og voru komnar í 12-4 eftir fyrst leikahluta og leikurinn endaði með sigri Keflavíkur 30-26.
Fyrsti leikurinn á sunnudeginum var við nágranna okkar úr Njarðvík. Það var greinilegt að stelpurnar voru eitthvað þreyttar og ekki nema von því að þessi leikur byrjaði kl. 9, en staðan eftir fyrsta leikhluta var 2-4 fyrir Njarðvík. En stelpurnar vöknuðu helduru betur til lífsins og unnu leikinn 24-18. Seinasti leikur mótsins var við Hamar/Selfoss og þurftu stelpurnar í H/S að vinna þennan leik til að falla ekki niður í B-riðil. Þær voru greinilega staðráðnar í því að láta það ekki gerast og unnu þær leikinn 40-23. Þrátt fyrir þetta tap þá unnu Keflavíkur stelpur þessa turneringu!
Skemmtilegt var að sjá hversu margir mættu til að styðja stelpurnar og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn. Stelpurnar stóðu sig frábærlega og eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína um helgina. Núna eru 4. vikur í úrslita-turneringuna sem verður helgina 1. og 2. apríl, og munu stelpurnar æfa af kappi þangað til og stefna þær auðvitað á að taka titilinn.