Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 31. mars 2009

Minnibolti kvenna 11. ára eru Íslandsmeistarar 2009

Keflavíkurstúlkur í minnibolta kvenna 11 ára voru taplausar þegar 4. og síðasta og fjölliðamót vetrarins  fór fram í Toyotahöllinni um helgina.  Stúlkurnar voru greinilega staðráðnar í að halda áfram á sömu braut enda léku þær afar vel og sigruðu alla sína andstæðinga með yfirburðum.  Þær eru því Íslandsmeistarar 2009 eftir frábært tímabil sem hefur einkennst af stöðugum framförum.

 

Keflavík mætti Grindavíkurstúlkum í fyrsta leik þar sem mikið kapp var lagt á að spila öfluga vörn, bæði með góðri yfirdekkun og gríðarlega sterkri hjálparvörn. Með þessa öflugu vörn og hreyfanlegri sókn (give/go & back door cut) náðu stúlkurnar yfirburða forystu sem þær höfðu allt til enda og endaði leikurinn 50-8 sem segir allt um þeirra varnarleik, enda bilið á milli þessara liða orðið meira heldur en það var í síðasta fjölliðamóti í DHL-höllinni.

Eins og fyrr í vetur fengu allar stelpurnar að spreyta sig þessum leik og stóðu sig frábærlega, og gaman að sjá hversu sterk liðsheildin er orðin .

 

Annar leikurinn í úrslitunum var á móti nágrönnum okkar úr Njarðvík sem að okkar mati var sterkasta liðið fyrir utan okkar lið auðvitað. Þrátt fyrir að spila ekki eins vel og á móti Grindavík voru Keflavíkurstúlkur ávalt með góða forystu, þar sem mikið var skorað úr hraðupphlaupum. Leikurinn endaði 39-14 og var sigur Keflavíkur stúlkna aldrei í hættu. Eins og í fyrsta leiknum þá fengu allar stelpurnar að spila og stóðu sig frábærlega.

 

Keflavíkurstúlkur mættu til leiks á sunnudeginum með það markmið að bæta sig frá deginum áður og gekk það svo sannarlega upp hjá þeim. Þær mættu Haukum í fyrsta leik og þar var leikinn hörku vörn sem Haukastúlkur réðu ekki við og voru Keflavíkurstúlkur með yfirburða forystu eftir 1. leikhluta. Sóknin gekk vel þar sem boltinn gekk manna á milli og oftar en ekki enduðu sóknirnar með góðri backdoor hreyfingu og leyup í kjölfarið.  Þegar líða fór á leikinn færði Keflavíkurliðið sig aftar í vörninni og spilaði vörnina frá þriggja stiga línunni þar sem mótspyrnan var ekki mikil enda lið Hauka að koma úr B-riðli.

Leikurinn endaði 54-11 og eins og í öðrum leikjum helgarinnar var sigurinn aldrei í hættu. Allar stelpurnar fengu að spila þessum leik eins og fyrstu 2 leikjunum.

 

Síðasti leikur helgarinnar var hreinn úrslitaleikur við KR þar sem bæði lið höfðu farið frekar létt með andstæðinga sína. Keflavíkurliðið mættu heldur betur tilbúnar til leiks og kafsigldu KR-stúlkur með hrikalega öflugum varnarleik og mikið af hröðum sóknum og staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-0 og Íslandsmeistaratitillinn í höfn. Það er óhætt að segja að liðið hafi spilað sinn besta leik frá því að þær hófu að æfa þar sem yfirburðir liðsins voru algjörir bæði í sókn og vörn. Þær unnu að lokum yfirburðar sigur 62-11.

Allar stelpurnar fengu að spreyta sig í þessum leik eins og vanalega og stóðu þær sig frábærlega og áttu þetta svo sannarlega skilið.

 

 

TIL HAMINGJU STELPUR