Nágrannaslagur í Domino´s deild kvenna í kvöld
Keflavíkurstúlkur taka á móti grönnum sínum úr Njarðvík í Domino´s deildinni í kvöld. Leikurinn fer fram í Toyotahöllinni kl. 19.15. Talsverður munur hefur verið á þessum liðum í vetur. Þannig eru Keflavíkurstúlkur á toppnum með 32 stig eftir 17 umferðir á meðan Njarðvíkurstúlkur eru í 6. sæti með 10 stig. Þrátt fyrir þennan mun má búast við erfiðum leik hjá Keflavíkurstúlkum enda eru nágrannaslagir af þessu tagi ávallt erfiðir.
Keflavíkurstúlkur hafa spilað virkilega vel það sem af er tímabili og skipt hlutverkum vel á milli sín. Íslensku stúlkur liðsins bera þannig mikla ábyrgð, svo mikla að þær eru efstar í þremur helstu tölfræðiþáttum liðsins. Pálína Gunnlaugsdóttir er stigahæsti leikmaður liðsins með 16 stig að meðaltali á leik, Sara Rún Hinriksdóttir er frákastahæst með 9 fráköst á leik og loks er Ingunn Embla Kristinsdóttir er stoðsendingahæst með 3.5 stoðsendingar á leik. Sú síðastnefnda hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið og munar um minna enda hefur hún átt stórgott tímabil.