Fréttir

Karfa: Unglingaráð | 10. mars 2010

Nettómótið 2010 - Þakkir í mótslok fyrir frábært framlag

Unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur vill færa öllum þeim félagsmönnum sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning og framkvæmd 20. Nettómótsins um s.l. helgi, stórkostlegar  þakkir fyrir þann mikla dugnað og  jákvæðni sem einkenndi alla sem komu að þessu gríðarstóra verkefni. 

Einnig viljum við þakka Unglingaráði UMFN og öllu þeirra fólki fyrir frábært samstarf.

Stærra körfuboltamót hefur ekki verið haldið áður á Íslandi. 1.022 keppendur, hellingur af foreldrum, þjálfurum og liðsstjórum, 148 lið frá 22 félögum, 356 leikir á 13 völlum í fimm íþróttahúsum,  10 bíósýningar, afþreyingargarður í Reykjaneshöll, yfir 800 manns í gistingu, matur alla helgina, þrjár rútur á ferðinni og svo mætti áfram telja upp umfang þessa verkefnis.

Ekki má gleyma framlagi starfsfólks og verktaka í íþróttamannvirkjum og skólum Reykjanesbæjar sem sýndi einstök liðlegheit og góða lund alla helgina þrátt fyrir mikið álag.  Þess má geta að um tvö þúsund gestir komu í Vatnaveröld um helgina sem er mesti fjöldi sem þangað hefur komið frá opnun laugarinnar.

Að síðustu fá öll þau fjölmörgu fyrirtæki sem studdu okkur miklar þakkir. Sérstakar þakkir fær Reykjanesbær og allt starfsfólk þar sem hefur komið að undirbúningi mótsins með okkur og síðast en ekki síst Samkaup sem hefur verið helsti bakhjarl mótsins um árabil.

Miðað við þau viðbrögð sem deildirnar hafa fengið, er ljóst að framkvæmd mótsins hefur verið félögunum og bæjarfélaginu til mikils sóma. M.a. barst okkur frábært þakkarbréf frá Hannesi S Jónssyni formanni KKÍ. Bréf hans má lesa í fréttinni "Vel heppnað Néttómót" á heimasíðu Reykjanesbæjar. Markmiðið er þó alltaf, að reyna að gera enn betur. Það verður næsta verkefni fyrir Nettómótið 5.-6. mars 2011.

Unglingaráð KKDK

P.s. sjá einnig www.nettomot.blog.is

Mynd tekin af VF.is