Nettómótið 2021 fellur niður
Stjórnir unglingaráða körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og Njarðvíkur hafa tekið þá ákvörðun að aflýsa Nettómótinu 2021 sem halda átti í Reykjanesbæ 6. og 7. mars næstkomandi. Á fundi deildanna var staða mála rædd og niðurstaðan er sú að ekki er talinn raunhæfur möguleiki á að fresta mótinu þar til síðar á árinu. Í ljósi mikillar óvissu sem ríkir vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar telja fulltrúar deildanna þetta því óhjákvæmileg ákvörðun.
Nettómótið er stærsta körfuknattleiksmót á Íslandi ár hvert þar sem allt að 1.300 börn hafa mætt til leiks, ásamt foreldrum og öðrum aðstandendum. Næsta Nettómót, það þrítugasta í röðinni, verður því haldið 5.-6. mars 2022. Þar mun öllu verða tjaldað til svo upplifun þátttakenda og gesta verði sem eftirminnilegust.
Með körfuboltakveðju,
KarfaN, hagsmunafélag