Nettómótið hefst á morgun - Stærsta mótið frá upphafi
Það verður líf og fjör í Reykjanesbæ um helgina þegar stærsta Nettómótið frá upphafi fer fram en það er jafnframt 20. ára afmælismót. Alls hafa um 1.000 þátttakendur verið skráðir til leiks eða 148 keppnislið frá 22 félögum og verða leiknir 360 leikir á 13 keppnisvöllum.
Liðin sem boðað hafa þátttöku sína eru:
Ármann, Breiðablik, Fjölnir, Fsu, Grindavík, Haukar, Hekla, Hörður, Höttur, ÍA, ÍR, Keflavík, KFÍ, Kormákur, KR, Njarðvík, Reykdælir, Snæfell, Stjarnan, Tindastóll, Valur og Þór Akureyri.
Mótið fer fram í Heiðarskóla, Akurskóla, Íþróttahúsi Njarðvíkur, Íþróttahúsinu við Sunnubraut og Íþróttahúsinu á Ásbrú og kemur fjöldi sjálfboðaliða að skipulagningu þess sem er í höndum barna- og unglingaráða köfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur. Einnig verður Reykjaneshöllin notuð sem afþreyingarmiðstöð meðan mótið fer fram en þar verða settir upp hoppukastalar og leiktæki.
Mótið hefst kl. 8:00 á laugardagsmorgun með móttöku liða í Holtaskóla en kl. 9:00 hefjast fyrstu leikir á öllum völlum.
Allir alvöru ungmennafélagsmenn, vinir og velunnarar deildanna eru hvattir til að heimsækja mótið um helgina og einnig væri frábært að allir sem vettlingi geta valdið, kíki í Toyota-höllina eða Ljónagryfjuna í kvöld og hjálpi til við undirbúning helgarinnar. Munum að ”margar hendur vinna létt verk”
Sjá nánar www.nettomot.blog.is