Nettómótinu 2011 lokið - þakkir í mótslok
Stærsta körfuboltamót sem haldið hefur verið á Íslandi fram til dagsins í dag, Nettómótið 2011 var haldið um síðustu helgi og líklega urðu nú flestir bæjarbúar varir við það á einn eða annan hátt. Þetta var jafnframt 21. mótið sem haldið er í frábæru samstarfi barna- og unglingaráða Körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur, Reykjanesbæjar og Nettó.
Nettómótið ert fyrir drengi og stúlkur 11. ára og yngri og er óhætt að segja, að mótið sé orðið hápunktur leiktíðarinnar hjá þessum aldursflokki. Alls mættu um 1.200 keppendur til leiks að þessu sinni og léku 447 leiki í 188 liðum á 13 leikvöllum en leikið var í fimm íþróttahúsum, Sunnubraut, Heiðarskóla, Njarðvík, Ásbrú og Akurskóla. Rúmlega 1.000 gestir gistu á vegum mótshaldara í skólamannvirkjum bæjarins, sem ekki dugði alveg til og á endanum urðu gististaðirnir alls 7, en auk skólanna var einnig gist í Íþróttahúsunum í Keflavík og Njarðvík og jafnvel Sjallanum í Njarðvík.
En það þarf ekki bara að útvega keppendum gistingu á svona móti heldur eru þeir einnig í fullu fæði. T.a.m. bakaði Sigurjón 1.600 skúffukökur ofan í liðið og hrærði nokkrar tunnur af vöffludegi, Langbest bakaði 410 pizzur í pizzuveisluna og smurðar voru 3.500 samlokur. Aldrei náðist að telja hvað fór af kjötbollum og tilheyrandi í hungraða keppendur ásamt ýmsu öðru fæði og ógrynni drykkja.
Bíósýningarnar urðu alls 12 og SBK og Hjalti rútubílstjóri sáu um að ferja keppendur á milli staða með traustum hætti, enda snarvitlaust veður í bænum þessa helgi. Einnig vorum við með tvær skutlur frá Bílaleigunni Geysi stöðugt á ferðinni sem keppendur gátu hringt í ef þeim vantaði far á milli staða.
Kvöldvaka mótsins var gríðarlega fjölmenn og fengum við Björgunarsveit Suðurnesja í lið með okkur til að halda öllu í öruggum höndum. Ölgerðin gaf gestum Mix eða Frissa Fríska við innganginn og NóiSíríus gaf nammi, enda laugardagskvöld. Solla Stirða og Íþróttaálfurinn komu í heimsókn og héldu uppi fjörinu, Óli troðslukóngur Íslands úr Grindavík og Hörður Axel sýndu tilþrif sem ekki hafa sést áður og að lokum mætti Friðrik Dór til að trylla ungdóminn. Hann átti þó erfitt uppdráttar þar sem hljóðkerfið brást okkur í lokin, en Friðrik er töffari sem hélt sínu striki þrátt fyrir þessa hnökra.
Verðlaunaafhending og mótsslit fóru óvanalega seint fram í þetta skiptið vegna stærðar mótsins eða kl. 15.30 á sunnudeginum. Einhver lið höfðu búið sig til heimferðar eins og verða vill þegar lið þurfa að ferðast landshlutana á milli, en það breytti þó ekki því að allir fengu sinn gullpening til minningar um mótið og gjöf í mótslok.
Allar tímaáætlanir á viðburðaröð mótsins stóðust fullkomlega þessa helgi og það gleður okkur mótshaldara mikið að ná því markmiði á sama tíma og mótið er að vaxa jafn skart.
Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur vill færa öllum þeim félagsmönnum sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning og framkvæmd 21. Nettómótsins um s.l. helgi, stórkostlegar þakkir fyrir þann mikla dugnað og jákvæðni sem einkenndi alla sem komu að þessu gríðarstóra verkefni.
Einnig viljum við þakka Barna- og unglingaráði UMFN og öllu þeirra fólki fyrir algjörlega frábært samstarf.
Ekki má gleyma framlagi starfsfólks og verktaka í íþróttamannvirkjum og skólum Reykjanesbæjar og Fjölbrautarskóla Suðurnesja sem sýndi einstök liðlegheit og góða lund alla helgina þrátt fyrir mikið álag.
Að síðustu fá þau fjölmörgu fyrirtæki sem studdu okkur miklar þakkir. Sérstakar þakkir fær Reykjanesbær og það starfsfólk þar sem hefur komið að undirbúningi mótsins með okkur og síðast en ekki síst Samkaup sem hefur verið helsti bakhjarl mótsins um árabil.
Nettómótið 2012 verður haldið á sama stað að ári þann 3.-4. mars n.k..
Barna- og unglingaráð KKDK
P.s. sjá einnig www.nettomot.blog.is