Njarðvík sigraði grannaslaginn
Keflvíkingar mættu í Ljónagryfjunni í gærkvöldi og fór þar fram harður slagur í Iceland Express deildinni. Framlengja þurfti leikinn og svo fór að Njarðvík fór með sigur af hólmi 104-102.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 9-21 forystu. 4 þristar á skömmum tíma hjá Njarðvík breyttu stöðunni hins vegar í 21-23 og allt galopið. Keflvíkingar fóru með forystu í leikhlé 43-45, en menn höfðu sjaldan séð jafnmikið þristaregn á Suðurnesjum, þar sem hvert þriggja stiga skotið fór ofan í á fætur öðru.
Í seinni hálfleik héldu Keflvíkingar svæðisvörn uppi og gerðu Njarðvíkingum erfitt fyrir. Í 4. leikhluta voru Keflvíkingar komnir með vænlega stöðu, en þeir höfðu náð 10 stiga forskoti á Njarðvíkinga og útlit fyrir að þeir myndu ekki gefa það eftir. Njarðvíkingar komu hins vegar grimmir til baka og náðu að komast yfir 89-88 þegar um mínúta var eftir. Lokamínútan var rafmögnuð, en Njarðvíkingar áttu síðustu sóknina í leiknum og klúðruðu henni, því fór leikurinn í framlengingu í stöðunni 93-93.
Í framlengingu var leikurinn mjög sveiflukenndur og bæði lið gáfu þumlung eftir. Njarðvík náði forystu þegar um hálf mínúta var eftir og Keflavík náði ekki að skora úr lokasókn sinni. Lokatölur 104-102.
Með sigrinum færðust Njarðvíkingar upp í 6. sæti deildarinnar með 16 stig en Keflavík er sem fyrr í 3. sæti með 26 stig.
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 30, Hörður Axel Vilhjálmsson 22/7 fráköst/6 stoðsendingar, Andrija Ciric 17/7 fráköst, Thomas Sanders 15/11 fráköst/8 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 7/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6/5 fráköst, Jón Nordal Hafsteinsson 4, Halldór Örn Halldórsson 1, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Kristján Tómasson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.
Njarðvík: Giordan Watson 40/4 fráköst/5 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 24/8 fráköst, Nenad Tomasevic 13, Jóhann Árni Ólafsson 8, Hjörtur Hrafn Einarsson 8, Páll Kristinsson 4, Rúnar Ingi Erlingsson 3, Egill Jónasson 2, Friðrik E. Stefánsson 2/12 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Kristján Rúnar Sigurðsson 0.