Fréttir

Karfa: Karlar | 11. apríl 2010

Njarðvík tók sigur í kvöld

Njarðvíkingar sigruðu Keflvíkinga í kvöld í Toyota Höllinni, en lokatölur leiksins voru 86-88.

Eins og við var að búast, þá mættu Njarðvíkingar dýrvitlausir til leiks og var ljóst að þeir voru ekki komnir í leikinn til þess að fara í sumarfrí. Fyrri hálfleikur var bráðfjörugur og skiptust liðin á að taka forystu með miklum látum. Staðan í hálfleik var 46-69 fyrir Njarðvík. Í 3. leikhluta var leikurinn nánast einstefna. Njarðvíkingar áttu völlinn og guð má vita hvar hausinn á Keflavíkurliðinu var í þeim leikhluta. Staðan eftir 3. leikhluta var 58-75. Það var svo ekki fyrr en undir lok á 4. leikhluta að Keflavíkurliðið fór af stað með flugeldasýningu jafnt og þétt, sem gerði það að verkum að þeir voru búnir að minnka forskot Njarðvíkinga úr 20 stigum í 3 stig þegar 13 sekúndur voru eftir og Keflvíkingar áttu boltann. Lagt var af stað í lokasókn og Gunni Einars reyndi erfitt 3ja stiga skot sem dansaði á innanverðum hringnum og upp úr. Út frá því fékk Hörður Axel 2 víti og skoraði hann úr fyrra, en seinna geigaði og barst boltinn að lokum til Gunna Stef sem skoraði, en leikurinn var úti.

Staðan því 2-1 og næsti leikur í Ljónagryfjunni á þriðjudaginn. Nú er bara að koma brjálaðir til leiks og klára dæmið Keflavík!

Stigahæstur hjá Keflavík var Gunnar Einarsson með 21 stig, en næstur honum kom Hörður Axel með 20 stig. Hjá Njarðvík voru Magnús Þór Gunnarsson og Nick Bradford með 20 stig hver.