Njarðvíkingar lagðir að velli í gærkvöldi
Grannaslagurinn mikli átti sér stað í Toyota Höllinni í gærkvöld, en þá mættu Njarðvíkingar í heimsókn. Leikið var í Iceland Express deild karla og áttu Njarðvíkingar harm að hefna eftir slæma útreið í síðasta leik gegn Keflavík sem var í Lengjubikarnum. Svo fór að Keflvíkingar reyndust sterkari aðilinn í gær og lönduðu flottum sigri 92-72.
Fyrri hálfleikurinn var efnilegur og voru bæði lið á því að þessi leikur yrði ekki gefins. Þó gekk ekki mikið upp hjá Njarðvíkingum í sókninn, en Travis Holmes og Cameron Echols héldu sínu liði inni í leiknum. Keflvíkingar voru þó alltaf með tærnar á undan í fyrri hálfleik og þar munaði mestu um Steven Gerard, sem setti 18 stig í fyrri hálfleik. Staðan 46-35 í hálfleik.
Flestir bjuggust við Njarðvíkingum dýrvitlausum inn í seinni hálfleikinn, en svo var ekki. Keflvíkingar sýndi mikinn styrk og börðust kröftuglega inni á vellinum. Þeir bættu jafnt og þétt í forskotið og þegar farið var að líða á 4. leikhluta var alveg ljóst í hvað stefndi. Lokatölur 92-72 eins og fyrr segir.
Með sigrinum náðu Keflvíkingar að skjóta sér upp í annað sæti deildarinnar með 16 stig, einungis tveimur stigum á eftir Grindvíkingum sem hafa 18 stig eftir jafnmarga leiki. Nú er einungis einn leikur eftir í deildinni fyrir jólafrí og verður hann spilaður 18. desember næstkomandi.
Keflvíkingar eiga einnig útileik gegn ÍR í Powerade bikarkeppninni, en sá leikur er 11. desember kl. 19:15 í Seljaskóla.
Stigaskor gærkvöldsins:
Keflavík: Steven Gerard Dagustino 30/7 stoðsendingar, Jarryd Cole 26/10 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 11/6 fráköst, Charles Michael Parker 10/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Gerald Albertsson 9, Valur Orri Valsson 3/4 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 2, Sigurður Friðrik Gunnarsson 1, Andri Þór Skúlason 0, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.
Njarðvík: Cameron Echols 25/10 fráköst, Travis Holmes 16/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 13/7 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 9, Jens Valgeir Óskarsson 6, Styrmir Gauti Fjeldsted 2, Maciej Stanislav Baginski 1, Rúnar Ingi Erlingsson 0/5 stoðsendingar, Sigurður Dagur Sturluson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Hilmar Hafsteinsson 0, Elvar Már Friðriksson 0.