Njarðvíkingar teknir í bakaríið!
Njarðvíkingar voru svo sannarlega teknir í bakaríið þegar þeir mættu í Toyota Höllina í kvöld, en lokatölur voru 93-73. Njarðvíkingar sáu aldrei til sólar í leiknum, þökk sé sterkum varnarleik Keflavíkur. Keflvíkingar komu dýrvitlausir til leiks og ljóst var að þeir ætluðu ekki að selja sig ódýrt. Þeir spiluðu grimman varnarleik og komust Njarðvíkingar sjaldan framhjá þessum stálvegg sem myndaðist. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-13. Keflvíkingar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og hömruðu látlaust á lykilmönnum Njarðvíkinga, með þeim afleiðingum að þeir annaðhvort misstu boltann, eða áttu mislukkaðar sendingar. Keflvíkingar voru sjóðandi heitir á þessum tímapunkti og héldu menn vart vatni yfir varnarleik þeirra, ásamt miklum hraða upp völlinn þegar þeir sóttu að körfu Njarðvíkinga. Staðan í hálfleik var 51-30 og gengu Njarðvíkingar með hangandi haus inn í búningsklefa í von um að Siggi Ingimundar myndi afhausa sem fæsta af lykilmönnum liðsins.
Seinni hálfleikur var ekkert síðri en sá fyrri, en þó poppuðu upp villuvandræði hjá Keflavík. Sigurður Þorsteinsson náði að næla sér í sína fjórðu villu, en skömmu seinna tókst Jonna Nordal einnig að landa sinni fjórðu villu. Þeir villuðu svo báðir út af í 4. leikhluta. Þrátt fyrir þetta létu Keflvíkingar ekki slá sig út af laginu og skiptu bara inn á mönnum af bekknum sem tóku þeirra stað, enda hefur liðið að skipa gríðarlegri breidd. Lánlausir Njarðvíkingar komust aldrei á lagið með spilamennskuna og ekki skrýið; Keflvíkingar einfaldlega söltuðu þá með varnarleik sínum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 72-54 og ljóst í hvað stefndi ef Keflvíkingar myndu ekkert slá af leik sínum. Leikurinn spilaðist á sömu nótum í 4. leikhluta og að lokum hömpuðu Keflvíkingar sigri 93-73.
Hjá Keflavík var Draelon Burns með 29 stig, Gunnar Einarsson með 23 og Hörður Axel með 18. Hjá Njarðvík var Nick Bradford með 16 stig, en blessaður drengurinn náði aldrei að gera neitt úr tilraunum sínum innan eða utan teigs. En vonandi mun strákurinn bæta úr leik sínum í Iceland Express-deildinni. Guðmundur Jónsson skoraði 9 stig. Það vakti athygli að Magnús Þór Gunnarsson var einungis með 8 stig, enda var hann í gjörgæslu allan leikinn og hitti einungis úr einu þriggja stiga skoti af ellefu tilraunum (1/11), sem verður að teljast ansi slök nýting, sér í lagi á sínum gamla heimavelli.
Þrátt fyrir tölfræðina var Hörður Axel Vilhjálmsson maður þessa leiks. Hann sýndi það og sannaði hvers vegna hann var nýverið valinn Körfuknattleiks- og Íþróttamaður Keflavíkur. Drengurinn var dýrvitlaus allan þann tíma sem hann spilaði inni á vellinu og "lék fáséða vörn í íslenska boltanum og blés vart úr nös eftir þær 33 mínútur sem hann hamaðist í Njarðvíkingum á báðum endum vallarins." (www.karfan.is). Það mætti í raun halda að Gaui Skúla hafi gefið Herði væna sprautu af amfetamín-sterum áður en hann steig inn á völlinn, slík var spilamennskan. Þó skal ekki tekið af öðrum mönnum lof, því þegar upp er staðið var það liðsheildin öll sem skóp þennan glæsilega sigur. Varnarleikurinn fær 10 í einkunn og er hann í raun eitthvað sem menn vilja sjá í hverjum einasta leik.
Keflavík er þar af leiðandi komið í 4-liða úrslit Subway-bikarkeppninnar ásamt Snæfell, ÍR og Grindavík. Dregið verður á miðvikudaginn næstkomandi fyrir 4-liða úrslitin.
Áfram Keflavík!