Fréttir

Karfa: Karlar | 8. apríl 2010

Njarðvíkingum skellt í Ljónagryfjunni

Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir í kvöld og skelltu Njarðvíkingum illilega í Ljónagryfjunni, en lokatölur leiksins voru 79-103 fyrir Keflavík. Keflvíkingar höfðu yfirburði í leiknum og settu í 5. gír í öðrum leikhluta, en þá tókst þeim að skora 29 stig gegn 15 hjá Njarðvík. Staðan í hálfleik var 36-51. Vörnin var gríðarlega sterk og fékk boltinn að flæða vel á milli leikmanna, sem oftar en ekki skilaði góðri körfu. Í seinni hálfleik gáfu Keflvíkingar ekkert eftir og voru dýrvitlausir inni á vellinum. Andvaraleysi Njarðvíkinga var allsráðandi í þeirra leik, sem gerði að lokum útslagið. Þeir voru ekki reiðbúnir í þetta gríðarlega öfluga Keflavíkurlið - því miður fyrir þá. Lokatölur eins og fyrr segir 79-103 og var dugnaðarforkurinn Gunnar Einarsson besti maður Keflvíkinga í leiknum. Hann skoraði 26 stig og sýndi það og sannaði í kvöld að hann getur ennþá spilað eins og tvítugur drengur. Sigurður Gunnar Þorsteinnsson var líka gríðarlega öflugur í leiknum og skoraði hann 20 stig og hirti 8 fráköst. Hjá Njarðvík voru Friðrik Stefánsson, Guðmundur Jónsson og Nick Bradford allir með 13 stig, en Friðrik Stefánsson hirti 12 fráköst í leiðinni.

Það er óhætt að segja að Keflvíkingar séu komnir með annan fótinn inn í úrslitarimmuna og ef þeir halda áfram með svona spilamennsku; þá er ekkert sem stöðvar þá.

Nú skulum við ÖLL mæta í Toyota Höllina á sunnudaginn og styðja við bakið á strákunum!

Áfram Keflavík!