Fréttir

Karfa: Konur | 6. október 2010

Njarðvíkurstúlkur stóðu í þeim Keflvísku

Keflavík og Njarðvík áttust við í kvöld í Iceland Express-deild kvenna, en leikurinn var háður í Ljónagryfjunni. Lokatölur leiksins voru 75-82 fyrir Keflavík, en leikurinn var langt í frá að vera gefins. Það má segja að fyrir leikinn voru Njarðvíkurstúlkur sýnd veiði, en þeim var spáð næstneðsta sæti fyrir tímabilið af þjálfurum og fyrirliðum liða í deildinni. 

Keflavíkurstúlkur byrjuðu leikinn betur og voru með 16-28 forystu eftir fyrsta leikhluta. Í seinni leikhluta komu Njarðvíkurstúlkur spilinu af stað og þeim tókst að skora 18 stig gegn 20 stigum hjá Keflavík, en staðan í hálfleik var 34-48. Seinni hálfleikur einkenndist af kæruleysi hjá Keflavíkurstúlkum og komust þær grænklæddu á lagið. Þær náðu þó aldrei almennilega í skottið á þeim Keflvísku þrátt fyrir góða baráttu. Undir lokin fór um marga í stúkunni þegar Njarðvík náði að minnka muninn í 5 stig og um 2 mínútur eftir af leiknum. Keflavík stóðst þó álagið og kláraði leikinn með 3 af ungu stelpunum inni á vellinum.

Það er klárt að Njarðvík ætlar ekki að láta hrakspár á sig fá í vetur ef þær spila eins og þær gerðu í kvöld. Þær gáfu reynsluboltunum í Keflavík ekkert eftir og spiluðu fantagóða vörn á köflum. Hjá Keflavík var sóknarleikurinn brothættur á köflum en á heildina litið var varnarleikurinn prýðilegur.

Atkvæðamest hjá Keflavík var Jacquiline Adamshick með 21 stig og 15 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 19 stig og tók 12 fráköst. Birna skoraði 15 og Pálína 13. Hjá Njarðvík var Shayla Fields með 19 stig og Dita Liepkalne 18.