Fréttir

Karfa: Hitt og Þetta | 23. júlí 2009

Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig

Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig til keppni á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.  Rífandi gangur hefur verið í skráningunni og nú þegar hafa u.þ.b. 70 keppendur á aldrinum 11-18 ára skráð sig til leiks hjá Keflavík. Hópurinn er því alltaf að stækka á hverju ári enda berst orðspor mótsins sem frábærrar fjölskylduhátíðar víða.  Flestir hafa skráð sig í körfuna en einnig er töluverð þátttaka í fótboltanum auk þess sem einhverjir ætla að spreyta sig í frjálsum, sundi og skák. Athugið að um leið og keppandi hefur verið skráður til leiks eru engin takmörk fyrir því hvað hann getur keppt í mörgum greinum en það þarf þó allt að koma fram við skráningu. Athugið að keppni í flestum greinum hefst á föstudagsmorgunn þannig að nauðsynlegt er fyrir fólk að vera komið á svæðið í síðasta lagi á fimmtudagskvöld.

Þeir félagsmenn sem ætla á mótið en eiga eftir á að skrá sig til keppni eru beðnir að senda tölvupóst á jon.ben@arkitekt.is sem allra fyrst þar sem sá frestur sem við gáfum er að renna út. Þar þarf að koma fram nafn, kennitala, heimilisfang og símanúmer viðkomandi iðkanda.  Einnig skal tekið fram í hvaða íþróttagrein eða greinum viðkomandi ætlar að skrá sig í . Keflavík býður, líkt og undanfarin ár, öllum keppendum á vegum félagsins greiðslu þátttökugjalda á mótinu, en þau eru 6.000 kr. fyrir hvern keppanda.  Eitt gjald er borgað fyrir hvern keppanda sem gildir sem þátttökugjald í allar greinar. Frítt er í sund og á tjaldsvæðin líkt og áður en þeir sem vilja rafmagnstengingu borga 1.000 kr. fyrir ótakmarkaða notkun alla helgina.

Glæsilega dagskrá mótsins má nálgast á heimasíðu mótsins; http://www.umfi.is/unglingalandsmot/dagskra/. 

Það skal vakin athygli á því að hægt er að skrá sig í liðsíþróttir, s.s. körfubolta og fótbolta þó svo að ekki sé búið að smala í lið innan félagsins.  Það eru einfaldlega búin til lið á staðnum þannig að allir geti verið með sem vilja enda ungmennafélagsandinn í hávegum hafður. Þeir sem verða 11 ára á árinu 2009 eru þeir yngstu sem hafa keppnisrétt.

Frekari upplýsingar gefur Jón Ben í síma 847 2503 og svo komum við með meiri fréttir á mánudagskvöld.