Fréttir

Körfubolti | 4. apríl 2006

Nú reynir á stelpurnar og stuðningsmenn líka!

Keflavíkurstúlkur náðu sér vel á strik í átta liða úrslitum gegn Grindavík á dögunum. Komu jafnvel á óvart eftir frekar slitrótta deildarkeppni og sópuðu Grindjánum út, 2-0. Manni fannst að þær væru að komast í gamla úrslitakeppnisformið, enda þrefaldir Íslandsmeistarar á ferðinni. En eitthvað datt botninn úr leiknum í upphafi úrslitanna gegn Haukum um daginn, reyndar má segja að stúlkurnar hafi ekki mætt til leiks fyrr en í seinni hálfleik. Ekkert var í gangi og Haukadömur fengu að skora að vild. Í seinni hálfleik ákváðu okkar stelpur að vera með en úrslitin voru löngu ráðin. Ekki góð byrjun, en þó hefur ekkert alvarlegt gerst ennþá.

En alvaran hefst í kvöld. Ef Keflavík ætlar að halda sér inní einvíginu er afar mikilvægt, nánast lífsnauðsynlegt, að landa sigri í kvöld. Ekki hefur gengið vel gegn Haukum í vetur og sigurleikur orðinn löngu tímabær. Haukar hafa náttúrulega tvær súper góðar konur í sínu liði, Helenu og Kanann, en ef þær eru frá taldar, finnst manni einhvern veginn að Keflavíkurliðið ætti að vera sterkara. Birna, María og Bryndís verða að ráða lögum og lofum undir körfunum í kvöld og ekki má gefa Megan frítt skot, því hún er ansi skotviss. Í sókninni gildir áræðnin, en stundum er eins og hana skorti hjá okkar stúlkum, veit ekki af hverju.

Nú er kominn tími til að Íslandsmeistararnir láti að sér kveða og einnig er kominn tími á að stuðningsmenn Íslandsmeistaranna láti í sér heyra. Stúlkurnar hafa rúllað upp keppninni ár eftir ár og nú þurfa þær á stuðningi að halda til að landa þeim stóra. Vonandi fá þær góða hvatningu. Sá sem þetta skrifar er sannfærður um að ef samvinnan er til staðar og baráttan í fyrirrúmi, þá sé Keflavíkurliðið sterkara en Haukaliðið. Kominn tími til að sýna það og sanna.

ÁFRAM KEFLAVÍK!