Nú stefnir í hreinan úrslitaleik um Iceland Express Deildarmeistaratitilinn!
Það fór eins og við höfðum spáð (og óskað) að Grindvíkingar lögðu Njarðvíkinga og þar með náðu okkar menn Njarðvík að stigum þegar tvær umferðir eru eftir. Takk fyrir það, Grindavík! Þetta gerir deildina skemmtilegri og meira spennandi en við höfum orðið vitni að í mörg herrans ár, því baráttan er svakaleg, næstum um hvert einasta sæti.
Við spáðum um daginn fyrir lokastöðu en sú spá mun ekki ganga eftir, allt var reyndar rétt nema einn leikur, en KR-ingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Snæfellinga á þeirra erfiða heimavelli. Þeir ætla sér greinilega þriðja sætið og hafa góða möguleika á að ná því núna.
Okkar menn voru á hælunum í kvöld, þó þeir hafi á endanum unnið mikilvægan heimasigur gegn Fjölni, 97-91. Vörnin var léleg allan leikinn og ekkert gekk að ráða við Sovic, en hann má eiga það, að þar fer ansi snjall körfuboltamaður, mikill skorari. AJ var góður, eins og yfirleitt, gerði 30 stig og hirti 14 fráköst, en fyrir utan hann voru það Arnar Freyr og Gunni Einars sem voru góðir hjá okkur. Arnar var reyndar meira en góður, hann átti stórleik, 23 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar, beautiful leikur hjá drengnum. Gunni setti sig í skorgírinn, eitthvað sem hefur stundum vantað hjá honum í vetur, og lét boltann fljúga í kvöld, setti niður fimm þrista og var aggressívur sóknarlega. Á endanum var sigurinn frekar öruggur, þrátt fyrir að við kæmumst aldrei úr öðrum gírnum. Dómararnir voru skelfilegir, því miður.
En whatever .... horfum fram veginn, hvað gerist nú? Síðasta spá okkar er úr sér gengin, hér kemur ný:
1. Kef 36 stig (vinna H/S og svo Nja í úrslitaleik)
2. Nja 34 stig (vinna Fjölni en tapa gegn okkur)
3. KR 30 stig (vinna Hött, en tapa gegn Gri)
4-6. Gri 28 stig (tapa gegn Sköllum, vinna KR)
4-6. Snæ 28 stig (vinna Hauka og Þór)
4-6. Skallar 28 stig (vinna Gri en tapa gegn Fjölni)
7. ÍR 24 stig (vinna Þór og H/S)
8. Fjölnir 18 stig (tap gegn Nja, en vinna Skalla)
9. H/S 12 stig (tapa gegn Kef og ÍR)
10. Þór 8 stig (tapa gegn ÍR og Snæfelli)
11. Höttur 8 stig (tapa gegn KR, en vinna Hauka)
12. Haukar 8 stig (tapa gegn Snæfelli og Hetti í lokaumferðinni)
Þarna eru smá breytingar frá síðustu spá. KR eru komnir í 3ja sætið, en ég veit ekkert um innbyrðis viðureignir Grindavíkur, Skallagríms og Snæfells til að raða þeim niður. Líklegt er þó að reiknimeistarar verði að fara að tálga blýantana og reikna út! Einnig sýnist mér að Höttur sé að eflast og gætu þeir gert Þórsurum greiða í síðustu umferðinni og unnið Hauka. En við áskiljum okkur rétt til að breyta þessum spám án nokkurs fyrirvara .....