Fréttir

Nýtt tímabil   -- spennandi tímar framundan
Körfubolti | 12. september 2013

Nýtt tímabil -- spennandi tímar framundan

Nú styttist óðum í körfuboltavertíðina  - okkur Keflvíkingum til mikillar hamingju eftir heldur magurt fótboltasumar. Karla- og kvennalið félagsins hafa gengið í gegnum nokkrar breytingar frá því í vor en þar ber hæst að nefna að nýr kafteinn er í brúnni þar sem Bandaríkjamaðurinn Andy Johnston mun stýra báðum liðum, en honum til halds og trausts verður Gunnar Hafsteinn Stefánsson sem mun aðstoða með karlaliðið og Rannveig Randversdóttir kvennaliðið. Fastlega má gera ráð fyrir nýjum áherslum,  miklum aga í leikskipulagi og nokkuð ljóst að spennandi tímar eru framundan.  Við vonumst að sjálfsögðu að árangurinn verði sýnilegur og að ungir leikmenn taki af skarið og blómstri undir stjórn Andy, Gunnars og Rannveigar.

Gunnar „No pain-no GEIN“  Einarsson tók að sér styrktarþjálfun í sumar og ekki þykir það óhollt fyrir leikmenn að fá handleiðslu frá þeim mikla kappa, sem með réttu ætti enn að vera að hrella andstæðinga Keflavíkurliðsins inni á vellinum. Gunnar hefur skapað sér gott nafn sem einkaþjálfari síðastliðin misseri og því til sönnunar hafa menn eins og Jón Arnór Stefánsson sótt í viskubrunn hans á sumrin, sem og nokkrir leikmenn úr Dominos deildinni. Það er því ljóst að leikmönnum liðsins hefur staðið til boða úrvals einstæklingsþjálfun sem á eftir að nýtast vel yfir langt tímabil.

Mfl. karla hefur þurft að sjá á eftir þeim Snorra Hrafnkelssyni (UMFN), Andra Skúlasyni (Fjölnir) og Sigurði Vigni Guðmundssyni (Breiðablik).  Í þeirra stað hafa þó komið ný andlit. Njarðvíkingurinn Guðmundur Jónsson tók brautryðjendaskref og spilar í Keflavíkurbúning í vetur eftir 2ja ára dvöl í Þorlákshöfn. Verður gaman að sjá þann flotta leikmann í TM höllinni í vetur og ljóst að þar er á ferð reynslumikill leikmaður sem kemur með mikil gæði að borðinu. Arnar Freyr Jónsson verður með okkur frá byrjun, meiðslalaus,  sem er mikið ánægjuefni og gefur okkur breidd í leikstjórnandahlutverkið með Val Orra Valsson árinu eldri og reyndari.  Stemmningströllið Þröstur Leó Jóhannsson ákvað snemma í sumar að snúa aftur heim frá liði Tindastóls og fáum við þar leikmann til baka með stórt Keflavíkurhjarta og mikla baráttugleði ofan á það sem hann kann fyrir sér í körfubolta. Má reikna með að þessir þrír leikmenn, ásamt Magnúsi Gunnarssyni eigi eftir að spila stór hlutverk með liðinu í vetur. Þá samdi liðið við Gunnar Ólafsson, ungan og mjög efnilegan bakvörð frá Fjölni.  Að lokum hóf Ólafur Geir Jónsson æfingar með liðinu en hann spilaði með Reynismönnum í  1. deildinni í fyrra og mun berjast um mínútur í stöðu bakvarðar/framherja.

Af erlendum leikmönnum er það að frétta að  Michael Craion snýr til baka. Það verður að teljast mjög jákvætt  enda mikil ánægja með hans störf á síðasta timabili. Stöðugleikinn í liðinu ætti því að geta orðið góður með reynsluboltana Magga, Þröst, Guðmund, Darrell og Arnar honum við hlið.

Við bindum vonir við að fá meira framlag í ár frá leikmönnum eins og Andra Dan, Almari Guðbrands, Hafliða  og Ragnari Alberts. Þarna eru strákar sem þurfa að koma sterkir inn af bekknum með framlag svo breiddin í liðinu verði á pari við bestu lið landsins.

Miðað við þessa upptalningu er ekki annað að sjá en að liðið hafi styrkt sig mikið og ljóst er að hörð samkeppni verður um stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar. Þá erum við líka tiltölulega vel mannaðir í stöðu framherja.

 

Mfl. kvenna varð fyrir mikilli blóðtöku þegar Pálína Gunnlaugsdóttir ákvað að söðla um og skrifa undir hjá Grindavík. Pálína hefur verið besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár og vissulega stórt skarð sem hún skilur eftir sig. Ingibjörg Jakobsdóttir ákvað að ganga til liðs við sitt uppeldisfélag og ljóst að tilkoma þessara tveggja, auk Maríu Ben, kemur til með að styrkja ungt Grindavíkurlið mikið. Þess má geta að áhugamenn hafa  verið að spá Grindavíkurkonum ofarlega í óformlegum könnunum, ásamt Keflvíkingum.  Kynslóðaskipti eru að verða í meistaraflokki kvenna og verður það ærið hlutverk þjálfarans að finna réttu blönduna.

Liðið hefur bætt við sig erlendum leikmanni með rándýrt nafn og nokkuð ljóst að breyta þurfti nafni íþrótttahússins til að landa henni. Hin 156 cm háa Porsche Landry kemur vonandi til með að vera driffjöður liðsins ásamt þeim Bryndísi Guðmundsdóttur, Söru Hinriks, Ingibjörgu Emblu  og hinni síungu Birnu Valgarðsdóttur. Að öðru leyti hafa nánast engar breytingar átt sér stað á kvennaliðinu og ljóst að mínútur verða á matseðlinum fyrir spilaþyrstar Keflavíkurmeyjar. Við bíðum spennt eftir að sjá hvernig leikmenn á borð við Söndru Þrastardóttur og Bríeti Hinriks koma undan sumri.  Sandra stimplaði sig rækilega inn í fyrra með mikilli baráttu og vinnusemi og ljóst að henni eru allir vegir færir í stöðu framherja/miðherja ef hún heldur áfram að vinna í sínum leik. Bríet átti flottar innkomur í fyrra eru bundnar vonir við að hennar hlutverk fari stækkandi.

Nýtt fyrirkomulag með erlenda leikmenn verður við lýði í ár og ætti staða Íslendingsins að vænkast til muna sem er jákvætt fyrir íslenskan körfubolta í heild sinni. Það er því töluverð tilhlökkun fyrir komandi tímabili og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn og jákvæður á gengi liðsins.

Undirbúningsmótin eru farin af stað og tími leikmanna að sanna sig fyrir nýjum þjálfara er nú í hámarki. Karlaliðið hefur spilað 2 leiki í Lengjubikarnum og unnið nokkuð þægilega sigra á Sauðkrækingum og Valsmönnum auk þess sem að liðið lék 2 leiki án erlendra leikmanna í Ljósanæturmóti Geysis.  Liðið leggur af stað til Svíþjóðar á sterkt mót í dag og má reikna með að ferðasögurnar læðist inn á síðuna á næstu dögum.

Kvennaliðið hefur spilað 2 leiki í Lengjubikarnum og beðið ósigur í þeim báðum.

Á næstu vikum munu fyrirliðar og þjálfarar liða ásamt fjölmiðlafólki setja saman hina árlegu spá fyrir Íslandsmótið og verður fróðlegt að sjá hvernig við komum út úr þeirri spá. Við hvetjum alla Keflvíkinga til að fjárfesta í árskorti á heimaleiki liðsins og vera duglegir að draga vini og vandamenn á leiki í vetur. Það er alltaf pláss fyrir fleiri í stúkunni og sannað mál að stuðningur áhorfenda skiptir gríðarlegu máli í stóra samhenginu.

Á móti óskum við stuðningsmenn eftir gæðum, leikgleði og baráttu frá öllum okkar leikmönnum og vonumst til að körfuboltatímabilið 2013-2014 verði okkur Keflvíkingum gæfuríkt.

-SFG