Oddaleikur gegn Val á þriðjudag - Grillum okkur í gang og styðjum stúlkurnar til sigurs!
Keflavíkurstúlkur taka á móti Val í oddaleik í 4-liða úrslitum Domino´s deildar kvenna í Toyotahöllinni þriðjudaginn 16. apríl. Stúlkurnar hafa tapað báðum heimaleikjum sínum til þessa en ætla að snúa við blaðinu á morgun með aðstoð og stuðningi frá öllum Keflvíkingum. Grillin verða sett í gang um kl. 17.30 og því flott að fá sér hamborgara og meðlæti fyrir leik. Þá verða bekkirnir sem eru í efri stúku settir niður til að mynda þá stemmningu sem stúlkurnar þurfa á að halda! Sýnum stelpunum stuðning og mætum til að hvetja og hafa gaman.
- ATH grillað verður við aðalinnganginn en ekki í VIP.
Allur sá fjöldi stuðningsmanna sem litið hefur við í Toyotahöllinni um sl. tvær helgar er beðinn að mæta á svæðið og rífa þakið af húsinu. Óumdeilt er að stuðningur áhorfenda virkar sem 6. maður og því mikilvægt að sem flestir láti sjá sig. Stelpurnar voru gríðarlega ánægðar með mætinguna á síðasta leik en skv. talningu aðstoðarþjálfara kvennaliðsins, þeim Erlu Reynisdóttir og Marínu Rós Karlsdóttur, munu 499 manns hafa mætt á leikinn en þær höfðu heitið syngja Adele slagarann "someone like you" til handa stuðningsmönnum í hálfleik ef 500 manns mættu. Í þetta skiptið hafa þær ákveðið að heita á stuðningsmenn aftur og lofa "dansshowi" á miðju gólfinu í hálfleik mæti fleiri en 500 manns. Náum þessu 500 manna takmarki svo hægt verði að herma þetta show upp á stúlkurnar. Sjón ætti að verða sögu ríkari!
Látum okkur ekki vanta og styðjum stelpurnar til sigurs - ÁFRAM KEFLAVÍK