Fréttir

Ólafur Styrmisson til Keflavíkur
Karfa: Karlar | 7. júní 2022

Ólafur Styrmisson til Keflavíkur

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur samið við unglingalandsliðsmanninn Ólaf Inga Styrmisson um að leika með liðinu næstu tvö árin. Ólafur Ingi kemur frá Fjölni þar sem hann skilaði 12,3 stigum og 7,3 fráköstum að meðaltali í leik í 1. deild en það skilaði kappanum í fimm manna úrvalslið deildarinnar. Ólafur þykir mikill leiðtogi en þessi 19 ára gamli og 200 cm framherji þykir einn fremsti leikmaður 2003 árgangsins en hann hefur verið frábær með yngri landsliðum Íslands og Fjölni undanfarin ár. Mun hann koma til með að styrkja Keflavíkurliðið fyrir komandi átök í Subway deild karla og auka breiddina.

 

Mikil ánægja er innan herbúða Keflavíkur með að Ólafur Ingi hafi ákveðið að taka slaginn með Keflavík. Þrátt fyrir ungan aldur gera þjálfarar Keflvíkinga væntingar til þess að Ólafur Ingi muni strax gera atlögu að mínútum með liðinu þó auðvitað sé stökkið milli 1. deildar og úrvalsdeildar talsvert. Sjálfur er Ólafur hvergi banginn og segist hann spenntur fyrir komandi tímabili. “Ég er að koma til Keflavíkur til að takast á við nýjar áskoranir, með þær vonir að geta bætt Keflavíkurliðið og sjálfan mig um leið.”

 

En hverju mega Keflvíkingar búast við af þessum unga leikmanni?

“Keflvíkingar mega búast við leikmanni sem leggur sig allan fram, bæði á æfingum og í leikjum. Ég er kominn til Keflavíkur til að gera mitt besta”