Ólöf Rún framlengir til tveggja ára
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur endurnýjað samning sinn við Ólöfu Rúnu Óladóttur til tveggja ára. Ólöf, sem er uppalin Grindvíkingur, er á sínu öðru tímabili en strax á síðasta tímabili var hún orðin lykilleikmaður hjá Keflavík með tæp 8 stig að meðaltali í leik á rúmum 20 mínútum.
Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari liðsins, og stjórn félagsins lögðu mikið upp úr því að halda Ólöfu enda mikilvægt púsl í liðinu bæði innan sem utan vallar. Magnús Þorsteinsson, formaður KKDK, sagðist glaður fyrir hönd Keflavíkur og Ólafar. “Það er frábært að Ólöf Rún sé búin að semja til tveggja ára. Hún hefur allt til brunns að bera til að láta enn meira til sín taka í framtíðinni með metnaði og undir leiðsögn Harðar. Ég hlakka bara til að sjá hana halda áfram að vaxa og dafna sem hörku spilari í búningi Keflavíkur.”
Sjálf kveðst Ólöf spennt fyrir komandi tímabili. “Ég hlakka mikið til að byrja aftur og spennt að gera betur en á síðasta tímabili. Mér finnst Jonni og Hörður hafa verið að byggja góðan grunn og ég hef fulla trú á því að bæði Hörður og liðið komi til með að gera enn betur.”