Fréttir

Karfa: Karlar | 16. september 2011

Öruggur sigur á Breiðablik

Keflvíkingar áttu ekki í miklum vandræðum með lið Breiðabliks í Reykjanesmótinu á miðvikudag, en leikið var í Toyota Höllinni. Svo fór að Keflvíkingar lönduðu öruggum sigri, 101-61.

Erlendu leikmenn Keflavíkurliðsins voru að koma nokkuð vel út, en Keflavíkurliðið mataði Jarryd Cole mikið inn í teignum og kappinn skilaði 37 stigum í leiknum þrátt fyrir að lítið gengi upp hjá honum í byrjun leiks.

Blikar héldu aðeins í Keflvíkinga í byrjun leiks en fljótlega var ljóst í hvað stefndi enda voru Keflvíkingar fastir fyrir og spiluðu gríðarlega góða vörn sem skilaði sér í mikið af hraðaupphlaupum og auðveldum körfum. Charles Parker, hinn Bandaríkjamaðurinn í liði Keflvíkinga, lét svo vel til sín taka í síðasta leikhlutanum og á endanum hafði hann skorað 23 stig. Aðrir leikmenn höfðu sig ekki jafnmikið frammi í stigaskori en varnarleikur liðsins þéttur og góður.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og Landsbankinn undirrituðu þetta sama kvöld samstarfssamning, en hann gildir næstu 2 árin. Landsbankinn og Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hafa átt í mjög góðu samstarfi undanfarin 20 ár og vonandi mun það samstarf halda áfram næstu árin.

 


Gunnar Jóhannsson, Formaður KKD Keflavíkur, og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans í
Keflavík, handsöluðu samninginn fyrir næstu 2 ár (mynd: vf.is)

 


Jarryd Cole með eina af troðslum sínum (mynd: vf.is)