Fréttir

Karfa: Konur | 5. nóvember 2011

Öruggur sigur á Haukastúlkum í dag

Keflavíkurstúlkur spiluðu sinn 5. leik í Iceland Express deild kvenna í dag, en mótherjarnir voru Haukastúlkur og leikið var að Ásvöllum. Svo fór að Keflavík sigraði 73-89 og var sá sigur í raun aldrei í hættu út leikinn.

Haukastúlkur létu finna fyrir sér á upphafsmínútum leiks, en Íris Sverrisdóttir skoraði fyrstu 9 stig Haukastúlkna með þremur 3ja stiga körfum á 2ja mínútna kafla. Keflavíkurstúlkur voru þó alltaf nærri og þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar af leiknum, tóku þær 0-13 áhlaup og sneru stöðunni frá 12-12 í 12-25. Haukastúlkur rönkuðu þó við sér eftir þessa blautu tusku og klóruðu í bakkann fram að hálfleik, en staðan í hálfleik var 35-45 Keflavík í vil.

Í seinni hálfleik létu Keflavíkurstúlkur engan bilbug á sér finna og tóku 0-11 áhlaup eftir rúmar 2 mínútur. Þegar þarna var komið við sögu, var staðan orðin 39-61 og nokkuð ljóst í hvað stefndi miðað við gang leiks. Keflavík hélt áfram að bæta í, þrátt fyrir að Haukastúlkur hafi reynt að gera sitt besta í að saxa á forskotið, sem var orðið of mikið. En lokatölur voru 73-89 eins og fyrr segir.

Jaleesa Butler var fremsti í broddi fylkingar með 24 stig og 10 fráköst í dag.

Þá kemur að hinni bráðefnilegu Söru Rún Hinriksdóttur, sem var með 20 stig. Þó er varla hægt að kalla þessa 15 ára stúlku efnilega lengur, þar sem hún er orðin algjör jafningi í stigaskori gagnvart meðspilurum sínum. Það er fyllilega óhætt að fullyrða að hér er að stíga fram á sjónarsviðið framtíðarstjarna  kvennaboltans á Íslandi, ef áfram heldur sem horfir. Hún hefur skorað 14,8 stiga að meðaltali í þeim 5 leikjum sem spilaðir hafa verið í Iceland Express deild kvenna á þessari leiktíð og hefur réttilega unnið sér sess í byrjunarliði Keflavíkurstúlkna.

Að öðrum skorurum Keflavíkurstúlkna í dag, skoraði Pálína Gunnlaugsdóttir 18 stig og Birna Valgarðsdóttir 14, ásamt því að hirða 8 fráköst.

 

Sara Rún Hinriksdóttir: Framtíðarstjarna kvennaboltans á Íslandi (mynd: karfan.is)