Fréttir

Karfa: Karlar | 20. mars 2012

Öruggur sigur á ÍR

Einhverjir bjuggust eflaust við hörkuleik í gær þegar ÍR-ingar mættu í heimsókn í Toyota Höllina, en þeir voru í harðri baráttu um að ná sæti í úrslitakeppninni sjálfri. Keflvíkingar eiga hins vegar í eigin baráttu við efri hluta deildarinnar og mikið í húfi. Svo fór að Keflvíkingar lönduðu öruggum sigri 121-89.

Þó var ekki að sjá í leiknum í gær að ÍR-ingar voru ýlfrandi grimmir um að fá sæti í úrslitakeppninni, því mikið vantaði upp á þeirra leik til að sigur myndi nást. Keflvíkingar voru snöggir að skapa sér forystu í leiknum og spiluðu prýðilega vel. Staðan í hálfleik var 64-52 og Valur Orri með baneitraðan þrist rétt áður en flautan gall.

Seinni hálfleikur var algjörlega á bandi Keflvíkinga og létu ÍR-ingar dómgæsluna fara í taugarnar á sér, ásamt því að vanta góðar sóknir til að koma stigum á töfluna. Keflavík hélt sínu striki þó og allir leikmenn fengu að setja mark sitt á leikinn. Lokatölur 121-89.

Nú er einn leikur eftir og Keflvíkingar í 5. sæti deildarinnar. Sá leikur er á fimmtudaginn gegn Fjölnismönnum á útivelli.

Jarryd Cole var atkvæðamestur í gær með 28 stig og Charles Parker með 22 stig. Maggi gerði 18 og Valur Orri 17.

 


Cole var atkvæðamestur í gær með 28 stig (mynd: karfan.is)