Pétur Pétursson fallinn frá
Fallinn er frá langt um aldur fram góður félagi og stuðningsmaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur til fjölda ára, Pétur Pétursson osteópati. Það var sannkallað glópalán fyrir körfuknattleiksdeild Keflavíkur og fjölmarga aðra þegar Pétur ákvað að fórna sleifinni og pottaglamri sem fylgir eldamennskunni, hafandi verið yfirmatreiðslumaður í Bláa Lóninu og setjast á skólabekk í Svíþjóð og nema osteópatiu. Það þarf kjark og óbilandi áhuga á viðfangsefninu auk góðs stuðnings fjölskyldu þegar menn taka slíkar beygjur í lífinu. Allt þetta var til staðar hjá honum og því góður líkur á að útkomman yrði góð þegar námi lauk, sem raun var á.
Það kom snemma í ljós eftir að Pétur tók að starfa í heilsugeiranum að hann var afburðarfær á sínu sviði. Hróður hans barst víða og fólk með ýmsa erfiða kvilla fékk bót meina sinna eftir að hafa hossast um heilbrigðiskerfið með misjöfnum árangri. Þeir fjölmörgu körfuboltamenn Keflavíkur sem Pétur tjöslaði saman og gerði leikfæra á mettíma eru ótlejandi. Þeir erlendu leikmenn sem leikið hafa með Keflavík í seinni tíma og þurftu að nýta sér þjónustu hans voru allir sammála um að aldrei hefðu þeir kynnst öðrum eins fagmanni þegar kom að því að höndla íþróttameiðsl. Álagið sem fylgir því að starfa í þessum geira og vera jafn eftirsóttur og Pétur var tók hinsvegar gríðarlegan toll. Þrátt fyrir að vera heilsuveill sjálfur brosti Pétur ætið og neitaði engum um aðstoð sem til hans leitaði. Allt fram undir það síðasta var Pétur að gera við bilaða líkamsparta íþróttamanna þó kraftar hans væru að þrotum komnir eftir harða rimmu við illvígan sjúkdóm sem hlífir fáum. Fórnfýsi og fagmennska voru honum í blóð borin. Þrátt fyrir að vinna langan vinnudag átti Pétur alltaf tíma fyrir fjölskyldu sína og það dylst engum sem til þekkja að hann var frábær fjölskydufaðir sem skilur eftir sig stórt skarð þar. En fótsporin geyma fallegar og hugljúfar minningar um góðan dreng sem áorkaði miklu á skömmum tíma. Það er með söknuði og trega en líka stolti og þakklæti sem við kveðjum þennan góða og hjartahlýja dreng sem gaf svo mikið af sér. Hans verður sárt saknað í stúkunni á komandi leiktíðum sem og annarsstaðar. Fjölskyldu hans og nánustu ættingjum vottum við okkar dýpstu samúð. Harmur þeirra er mikill.
Fyrir hönd.
Körfukknattleiksdeildar Keflavíkur
Ingvi Þór Hákonarson Formaður KKDK.