Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 18. mars 2011

Risastór helgi framundan - þrjú fjölliðamót á heimavelli

Það má segja að keppnistímabilið í körfunni sé nú í algleymingi. Meistaraflokkar félagsins hefja leik í úrslitakeppninni í kvöld og á morgun auk þess sem risastór helgi er framundan hjá yngri flokkum félagsins þegar 4. og síðasta umferðin á Íslandsmótinu verður leikin í fjórum flokkum. Líklega hefur aldrei áður komið upp sú staða hjá félaginu að þrjú fjölliðamót af fjórum fari fram á heimavelli og höfum við í raun aldrei áður verið með þrjú mót sömu helgina, en þetta er hægt þegar allir leggjast á eitt. Nákvæma leikjadagskrá helgarinnar í Keflavík má nálgast með því að klikka hér (ath. að þetta eru tvær bls.).

Minnibolti  11. ára drengja hefur verið í mikilli framför í vetur undir stjórn þjálfara síns, Björns Einarssonar. Peyjarnir rétt náðu að halda sér í A-riðli í 1. umferð með einum sigri en hafa hafnað í 2. sæti riðilsins síðan. KRingar eru eina liðið sem þeir hafa ekki náð að leggja af velli í vetur og þeir áttu heimavallarréttinn í lokaumferðinni en gátu ekki haldið mótið þannig að liðið með næst besta árangurinn í vetur heldur mótið sem er Keflavík. Leikið verður í Toyota höllinni fyrri part laugardags og seinni part sunnudags en þá verða nýir Íslandsmeistarar krýndir í þessum aldursflokki. KR á reyndar tvö lið í loka umferðinni og hafa gríðarlega breiðum og góðum hóp á að skipa í þessum árgangi, en að auki leika Stjarnan og ÍR í lokamóti A-riðils.

7. flokkur stúlkna eru búnar að fara á kostum í vetur og hafa ekki tapað leik í A-riðli. Þær geta með sama áframhaldi tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á sunnudag. Stelpurnar leika seinni part laugardagsins í Heiðarskóla og fyrri part sunnudagsins í Toyota höllinni. Hin liðin sem leika í lokaumferðinni eru Tindastóll, Hrunamenn, Njarðvík og KR.

10. flokkur stúlkna  er enn einn stúlknaflokkur félagsins sem er ósigraður í vetur en þær leika líkt og 7. flokkurinn undir stjórn Jóns Guðmundssonar. Þær leika fyrri part laugar- og sunnudags í Heiðarskóla þar sem fjögur efstu lið umferðarinnar fara í 4-liða úrslit Íslandsmótsins sem leikin verða í apríl.  Hin liðin sem leika í lokaumferðinni eru Grindavík, Breiðablik, Valur og Njarðvík.

9. flokkur drengja leikur í C-riðli og ætla sér sjálfsagt ekkert annað en að munstra sig í B-riðil á nýjan leik. Þeir Kumas Máni og Birkir Örn verða með öfluga stráka úr 8. flokki sér til halds og trausts en þeir eru einu drengirnir sem eru á réttum aldri í þessum flokki. Leikið verður í Hveragerði og leika drengirnir undir stjórn Guðbrands Stefánssonar.

Keflavík leikur á laugardag gegn Hrunamönnum kl. 12.30 og gegn Þór Akureyri kl. 19.15.  Á sunnudag leika þeir gegn Stjörnunni kl. 11.30 og að lokum kl. 14.00 gegn heimamönnum í sameiginlegu liði Þórs Þ./Hamars. 

ÁFRAM KEFLAVÍK :)