Fréttir

Körfubolti | 9. apríl 2006

Röfl og sumarfrí

Jæja, við Keflvíkingar verðum víst að sætta okkur við að einhverjir aðrir verði Íslandsmeistarar en við. Undanfarin þrjú ár höfum við borið höfuð og herðar yfir önnur félög á landinu, en ekki lengur. Þegar maður flýgur hátt er hætt við að fallið sé sársaukafullt. Og af því að við erum enn í fýlu yfir því að vera ekki lengur Íslandsmeistarar, hvorki í kvenna né karla, og að vera komnir í snemmbúið sumarfrí, þá fáum við útrás með smá röfli um hitt og þetta sem tengist boltanum ….. :)

Um mótanefnd
Hvað er mótanefnd að pæla með niðurröðun í úrslitunum? Skallar fá bara einn dag í frí eftir erfiða fimm leikja seríu, því svo mikið liggur á að hefja úrslitin. Síðan er aftur bara einn dagur í frí. Og hvað svo? Fimm dagar þar á eftir! Það er ekki heil brú í þessari leikjaniðurröðun. Hún er afar ósanngjörn gagnvart Skallagrími og hún er afar leiðinleg fyrir áhorfendur. Lagt af stað með látum en síðan ekkert spilað í tæpa viku. Lélegt.

Um dómaranefnd
Hvað er dómaranefnd að pæla með niðurröðun dómara í úrslitum. Tveimur dögum eftir að Rögnvaldur dómari sýnir skelfilegustu frammistöðu sem sést hefur árum saman er hann verðlaunaður með því að láta hann dæma úrslitaleikinn. Hvaða rugl er þetta? Hann hefði átt að vera sendur í frí og einhver annar sendur inn í staðinn. Þessir svokölluðu “góðu” dómarar okkar eru ekkert betri en hinir, svo það hefði engu máli skipt. Lélegt.

Um Fréttablaðið
Frábær “grein” hjá Fréttablaðinu í gær þar sem þeir býsnast yfir því að við skrifum nafnlausa gagnrýni á dómara leiksins. Og þeir skrifa sjálfir nafnlaust. Flottir. Hver er munurinn eiginlega á þeirra nafnleysi og okkar? Hvað um það, sumum finnst lélegt að við séum að kenna dómurum um tapið gegn Sköllum. Allt í lagi, mönnum má finnast það. Eftir stendur samt að við bentum klárlega á hrikaleg dómaramistök sem réðu úrslitum leiksins. Það stendur óhaggað. Af hverju má ekki tala um það?

Þetta er allt frekar neikvætt í dag, kannski skiljanlegt, en við verðum örugglega jákvæðari næst, hættir að röfla og farnir að huga að næsta vetri ….