Rúnar Már hafði heppnina með sér í jólahappdrætti KKDK
Rúnar Már Sigurvinsson hafði heppnina með sér í jólahappdrætti Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur á dögunum er kappinn vann glæsilegan Iphone 4s frá Vodafone. Kappinn mætti prúðbúinn til myndatöku í Toyotahöllinni fyrir leik Keflavíkur og Njarðvíkur í 8-liða úrslitum Poweradebikarsins. Hafði hann á orði að hann hefði sjaldan haft sig jafn mikið til fyrir körfuboltaleik og í þetta skiptið. Afraksturinn má sjá á myndinni hér að ofan en Sigurður Markús Grétarsson, stjórnarmaður KKDK og starfsmaður Vodafone, féll þar algjörlega í skuggann á glæsimenninu Rúnari Már þrátt fyrir að þykja með eindæmum glæsilegur maður. Myndin sem um ræðir var einmitt tekin þegar Rúnari Má var afhentur síminn frá Vodafone.
Skemmtileg saga er af því hvernig Rúnar Már hafði áskotnast miðinn. Þannig er mál með vexti að mikill stuðningsmaður Keflavíkur hafði fjárfest í nokkrum jólahappdrættismiðum sem hann hugðist gefa körfuknattleiksdeildinni til baka. Stjórnarmanni Keflavíkur þótti þó ekki rétt að þiggja miðana og sagði þessum miskunarsama samverja frekar að taka þá sjálfur og gefa vinum eða ættingjum í jólapakkann. Tók hann því við miðunum aftur um leið og hann sagði, "Já, ætli sé ekki best að ég gefi Rúnari Má og Neta-Geira sinn hvorn miðann allavega". Nú ekki þarf að spyrja að leikslokum, Rúnar Már datt í lukkupottinn og ljóst að þessi miskunarsami samverji á eflaust nokkur frí símtöl inni hjá glæsimenninu.
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur vill nota tækifærið og þakka Vodafone fyrir þennan stórglæsilega vinning.