Salbjörg Ragna til liðs við Keflavík
Salbjörg Ragna til liðs við Keflavík
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir (mynd: Karfan.is)
Kvennalið Keflavíkur hefur gengið frá samkomulagi við Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur að hún leiki með Keflavíkurstúlkum næstu tvö árin. Salbjörg er fædd árið 1991, en hún kemur frá Hamar þar sem hún spilaði sem stöðu Miðherja síðasta tímabil, skoraði 8.5 stig og hirti 8.2 fráköst að meðaltali í leik. Salbjörg lék áður undir leikstjórn Sverris Þórs með Njarðvík í þrjú tímabil og varð Bikar- og Íslandsmeistari með þeim árið 2012. Salbjörg kom inn í A landsliðshóp kvenna í vetur og lék sinn fyrsta landsleik í febrúar á þessu ári, en Salbjörg mun koma til með að styrkja hóp Keflavíkurstúlkna verulega fyrir næsta tímabil.
Keflavík karfa bar nokkrar spurningar undir Salbjörgu í tilefni þess að hún hefur gengið í raðir kvennaliðs Keflavíkur.
Hver var ástæðan fyrir því að þú ákvaðst að ganga til liðs við Keflavík?
Það voru nokkrar ástæður fyrir því að ég ákvað að fara til Keflavíkur. Ég hef áður spilað hjá Sverri og líkaði það mjög vel og mig langaði mikið til að spila aftur hjá honum, sem var aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að spila fyrir Keflavík. Það sem heillaði mig einnig var að það er mikið af flottum ungum stelpum í Keflavík sem hafa tekið miklum framförum og ég hlakka til að æfa og spila með. Ég á líka góða vini á svæðinu síðan ég var að spila með Njarðvík og það verður gaman að vera nær þeim og geta hitt oftar.
Hvernig leggst komandi tímabil í þig?
Ég er mjög spennt fyrir tímabilinu og hef mikla trú á liðinu, held við eigum eftir að gera góða hluti.
Nú ertu í annað skiptið að fara undir stjórn Sverris, hann hlýtur að vera að gera góða hluti sem þjálfari að þínu mati?
Já ég er mjög hrifin af Sverri sem þjálfara og held að bæði liðið og einstaklingar eigi eftir að taka miklum framförum hjá honum í vetur.
Hvernig metur þú komandi tímabil og gengi kvennaliðs Keflavíkur?
Ég held að tímabilið eigi eftir að ganga vel. Liðið er ungt og efnilegt og ég er alveg viss um að Sverrir eigi eftir að ná mjög langt með liðið, alla leið í úrslitakeppnina.
Eitthvað að lokum?
Ég efast ekki um að tímabilið verður mjög skemmtilegt og ég hlakka mikið til vetrarins.
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur óskar Salbjörgu til hamingju með samkomulagið.
Áfram Keflavík!