Seiglusigur á Hauka-stúlkum
Keflavíkur-stúlkur eru á blússandi siglingu um þessar mundir, en þær sigruðu sinn 3ja leik í röð gegn Íslandsmeisturum Hauka fyrr í kvöld. Lokatölur voru 67-68 fyrir Keflavík og var sigurinn fyllilega verðskuldaður. Keflavíkur-stúlkur tóku forystu strax í seinni hluta fyrsta leikhluta, en yfirburðir Keflavíkur-stúlkna í öðrum leikhluta gerði það að verkum að staðan í hálfleik var 29-43 fyrir Keflavík. Stelpurnar spiluðu góða vörn og var ráðaleysi Hauka-stúlkna algjört á köflum. Það var ekki fyrr en í 3ja og 4ja leikhluta að Hauka-stúlkur náðu að saxa duglega á forskotið, en þær komu keyrandi upp í sína síðustu sókn þegar um 20 sekúndur voru eftir af leiknum og brotið var á Heather Ezell þegar 5.7 sekúndur voru eftir í stöðunni 66-68. Heather skoraði úr fyrra en seinna skotið geigaði. Keflavík tók leikhlé og áttu þær svo innkast á miðjum vellinum. Eftirleikurinn var auðveldur hjá Keflavík og voru þetta lokatölur leiksins. Pálína Gunnlaugsdóttir kom inn á í 4ja leikhluta, en hún er byrjuð að æfa með liðinu á ný sem nýbökuð móðir. Hún stóð sig prýðilega og á klárlega eftir að styrkja liðið töluvert á tímabilinu.
Stelpurnar sýndu stáltaugar á lokamínútu leiksins og sigurinn fyllilega verðskuldaður eins og áður sagði. Hjá Keflavík var Kristi Smith atkvæðamest með 19 stig, en Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 18. Hjá Haukum var Heather Ezell með 27 stig, en Ragna Margrét Brynjarsdóttir var með 18 stig. Með sigrinum tókst Keflavíkur-stúlkum að mjaka sér í 4.-5. sæti deildarinnar með 6 stig ásamt Hauka-stúlkum.