Sigur eftir framlengingu í bráðskemmtilegum leik
Keflavík vann góðan sigur á sameiginlegu liði Snæfells/Skallagríms í Unglingaflokki karla í Toyota höllinni fyrr í kvöld.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 15-2 áður en gestirnir fóru að bíta frá sér af einhverju ráði. Að sama skapi dofnaði aðeins neistinn hjá heimamönnum og liðin voru jöfn að stigum í hálfleik 46-46. Jafnræði var á með liðunum í síðari hálfleik og munurinn aldrei nema nokkur stig. Þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka höfðu heimamenn fimm stiga forystu og virtust ætla að að klára leikinn með sigri en gestirnir voru síður en svo hættir og komust í raun í lykilstöðu 83-80 og áttu boltann þegar ca. 30 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Þeir töpuðu hins vegar boltanum í þeirri sókn þegar um 19 sekúndur voru til leiksloka og Keflavík fékk tækifæri á að jafna metin. Sigmar Logi prjónaði sig upp að körfunni þegar um 13 sekúndur voru eftir af leiknum og var hamraður niður í skottilraun. Sigmar fór á vítalínuna og setti fyrra skotið ofan í en seinna skotið geigaði. Drengurinn gerði sér þó lítið fyrir, hirti frákastið sjálfur og lagði hann í spjaldið og niður í kjölfarið, 83-83. Gestirnir áttu sókn og fóru heldur geyst sem endaði með því að þeir töpuðu boltanum út fyrir endalínuna Keflavíkurmegin. Heimamenn náðu síðan ekki að gera sér mat úr þeim 3-4 sekúndum sem eftir lifðu leiks þannig að framlengja þurfti leikinn.
Þrátt fyrir að gestirnir skoruðu fyrstu stigin í framlengingunni reyndust Keflvíkingar vandanum vaxnir á lokametrunum og lönduðu þéttum sigri 98-90. Bæði lið voru í töluverðum villuvandræðum undir lok leiksins og Sigmar sem átti góðan leik í kvöld þurfti að yfirgefa völlinn fljótlega í framlengingunni með fimm villur og Almar sem sömuleiðis var mjög öflugur lék lungann af seinni hálfleik með fjórar á bakinu. Fjórir leikmenn Snæfells/Skallagríms voru komnir á bekkinn þegar um hálf mínúta var eftir af framlenginunni og því aðeins fjórir menn eftir inni á vellinum þar sem þeir voru einungis átta á skýrslu í þessum leik. Á þeim tímapunkti var sigur Keflavíkinga þó í höfn. Andri Þór Skúlason lék ekki með Keflvíkingum í kvöld vegna meiðsla.
Stigaskor Keflavíkur:
Sigmar Logi 33 stig
Almar Guðbrands 28
Hafliði Már 12
Sigurður Vignir 7 stig
Sævar 6 stig
aðrir minna
Sigmar Logi Björnsson