Sigur gegn Haukastúlkum
Keflavíkurstúlkur sigruðu Haukastúlkur með glæsibrag í kvöld, en lokatölur leiksins voru 85-65. Þar af leiðandi náði Keflavík að tryggja sér 4. sætið í Iceland Express-deildinni. Það var beitt Keflavíkurlið sem mætti til leiks og var það ljóst á fyrstu mínútum leiksins að þær ætluðu ekki að gefa eftir 4. sætið án baráttu. Haukastelpur tóku þó að taka góða rispu og náðu að halda sér vel inni í leiknum í fyrsta leikhluta. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-18. Í öðrum leikhluta skiptust liðin á stigum, þó voru Keflavíkurstúlkur grimmari. En þegar nokkrar mínútur voru til loka leikhlutans, þá settu Keflavíkurstúlkur allt í gang og skoruðu 14 stig gegn 0 hjá Haukastelpum. Staðan í hálfleik var 46-28. Í seinni hálfleik héldu Keflavíkurstúlkur uppteknum hætti og bættu við stigum jafnt og þétt, ásamt því að láta Haukastelpur aldrei komast hættulega nálægt sér. Minnstur var munurinn 10 stig og sigurinn var aldrei í verulegri hættu í 3. og 4. leikhluta.
Hjá Keflavík var Kristi Smith með 28 stig, Birna Valgarðsdóttir með 19 og Bryndís Guðmundsdóttir með 15. Hjá Haukastelpum var Heather Ezell með 24 stig og Kiki Jean Lund var með 16.
Það virðist hvíla góður andi í Toyota Höllinni um þessar mundir, en allir heimaleikir Keflavíkurliðanna á þessu ári (4 leikir) hafa endað með stórsigrum. Liðin eru að smella mjög vel saman og er eintóm bjartsýni sem ríkir í herbúðum liðanna með komandi leiki. Vonandi mun andinn hvíla áfram í húsinu þegar líður á tímabilið, sér í lagi þegar strákarnir taka á móti Snæfell í 4-liða úrslitum Subway-bikarkeppninnar.