Sigur gegn ÍR
ÍR-ingar voru lagðir auðveldlega í Toyota Höllinni í gærkvöldi, en lokatölur leiksins voru 107-81. Keflvíkingar voru fljótir að finna glufur á vörn ÍR-inga og nýttu sér það til hins ítrasta. Turbo gírinn var svo settur í gang í öðrum leikhluta, en þá voru ÍR-ingar sundurspilaðir með öflugri spilamennsku Keflvíkinga. Staðan í hálfleik var 67-48 og orðið ljóst í hvað stefndi ef ÍR-ingar myndu ekki skipta um leikplan. Það gerðist ekki og Keflvíkingar báru sigurorð af þeim eins og fyrr sagði, 107-81. Allir Keflvíkingar nema Jón Norðdal náðu að skora í leiknum. Keflvíkingar léku án Rahshon Clark, en hann slasaðist á fingri í síðasta leik gegn Stjörnunni. Gert er ráð fyrir að hann verði með í næsta leik.
Stigahæstur hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson með 22 stig, en á eftir honum kom Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 16 stig. Hjá ÍR var Nemanja Sovic með 24 stig, en á eftir honum kom Gunnlaugur H. Elsuson með 9 stig.