Fréttir

Karfa: Karlar | 14. febrúar 2010

Sigur gegn ÍR

Karlalið Keflavíkur sigraði ÍR fyrr í kvöld í Iceland Express-deildinni, en lokatölur voru 84-103. Leikurinn gekk ekki þrautarlaust fyrir sig og voru ÍR-ingar yfir allan 1. leikhluta. Það var ekki svo fyrr en nokkrar mínútur voru búnar af öðrum leikhluta að strákarnir hrukku í gang og náðu forystu. Þeim gekk þó illa að hrista ÍR-inga almennilega af sér og var það ekki fyrr en í 4. leikhluta að þeir flugu duglega fram úr í stigaskori.

Hjá Keflavík var Draelon Burns með 25 stig og 12 fráköst, en Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 20 stig. Hjá ÍR var Steinar Arason atkvæðamestur með 27 stig, en Nemanja Sovic skoraði 19 stig og tók 15 fráköst.

Góður sigur og sem fyrr eru Keflvíkingar í öðru sæti deildarinnar með 26 stig, en KR-ingar sitja á toppnum með 28 stig eftir jafnmarga leiki. Stjörnumenn sitja í 3. sætinu með 24 stig, en þeir eiga leik til góða á útivelli gegn Tindastól og geta komist að hlið Keflvíkingum með sigri.