Sigur gegn ÍR
Keflvíkingar spiluðu sinn fyrsta heimaleik í endurbættri Toyota Höll gegn ÍR í kvöld. Sigur var niðurstaðan fyrir Keflvíkinga, en lokatölur leiksins voru 88-77.
ÍR-ingar komu feykisterkir í leikinn og leiddu fyrstu mínútur leiksins, en Keflvíkingar hrukku þá í gang og var staðan eftir fyrsta leikhluta 25-25. Í seinni leikhluta skiptust liðin á forystu og ÍR-ingar settu hvern þristinn á fætur öðrum niður. Keflvíkingar náðu að taka forystu í lok leikhlutans og Elentínus Margeirsson setti forystu Keflvíkinga í 3 stig með 2ja stiga bjöllu-skoti í lok leikhlutans. Í seinni leikhluta settu Keflvíkingar fullt púður í leikinn og náðu sannfærandi forystu. Grimm vörn og staðfesta í sóknarleik gáfu liðinu það forskot. ÍR-ingar náðu aldrei að komast aftur almennilega inn í leikinn og voru að mestu að spila á einstaklingsframtaki. Lokatölur leiks eins og áður segir 88-77 fyrir Keflavík.
Keflvíkingar spiluðu án Valentino Maxwell, en kappinn meiddist í leik gegn KR á dögunum. Niðurstöður úr hans læknisskoðunum ættu að liggja fyrir á morgun. Elentínus Margeirsson kom inn í stöðu leikstjórnanda og leysti það hlutverk mjög vel af hendi. Keflvíkingar áttu góðan leik í kvöld útlendingalausir, ásamt því að Hörður Axel hefur verið að glíma við meiðsli, en hann spilaði 26 mínútur í leiknum engu að síður.
Gunnar Einarsson var funheitur í fyrri hálfleik og gerði 22 stig. Hann endaði stigahæstur hjá Keflavík með 24 stig. Sigurður Gunnar Þorsteinsson gerði 19 stig og Hörður Axel 16. Hjá ÍR var Kelly Biedler með 21 stig og gamli Keflvíkingurinn Vilhjálmur Steinarsson gerði 19 stig. Þessi 19 stig gerði hann bara úr 3ja stiga skotum, en hann hitti 6/9 í leiknum í 3ja, sem er fjári góð nýting.