Sigur gegn KR - Lazar fór mikinn
Keflvíkingar réttu heldur betur úr kútnum í kvöld þegar þeir innbyrtu sigur gegn KR í Toyota Höllinni í kvöld, en lokatölur leiks voru 95-91.
Keflvíkingar höfðu töglin og haldirnar allan leikinn, en KR-ingar náðu þó að hækka blóðþrýsting áhorfenda undir lok 4. leikhluta þegar þeir jöfnuðu leikinn. Keflvíkingar sýndu þó mikinn karakter og náðu að komast aftur yfir og kláruðu leikinn. Staðan í hálfleik var 53-45 fyrir Keflavík.
Lazar Trifunovic fór mikinn í sínum fyrsta leik, en kappinn skoraði 26 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Valentino Maxwell var að spila sinn fyrsta leik eftir erfið meiðsli og skoraði hann 21 stig og tók 6 fráköst. Hann hefur góðan tíma til að loka meiðslum sínum, en næsti leikur í deildinni er gegn Fjölnir þann 11. nóvember næstkomandi. Hörður Axel Vilhjálmsson var með góða stýringu á leiknum hjá Keflavík en hann skoraði 18 stig.
Hjá KR var Marcus Walker sterkur með 28 stig. 3 skoruðu 13 stig og Pavel Ermolinskij náði sér aldrei á strik. Hann skoraði 9 stig og tók 4 fráköst.
Við viljum minna gallharða stuðningsmenn Keflavíkur að skrá sig í stuðningsmannastúkuna niðri. Það var gríðarlega góð stemning fyrir leik og Tippklúbburinn Lukkustrákar með flatskjáinn á lofti sem sýndi stöðu Tippara fyrir allra augum. Þetta kostar ekki nema 2500 kr. á mánuði og því fylgir miði á alla heimaleiki karla og kvenna í vetur. Einnig á leiki í úrslita- og bikarkeppni. Menn geta sleppt því að kaupa sér eina pizzu í mánuði og hent sínum pening í þetta málefni í staðinn.
Það skal tekið fram að greinarhöfundur var búinn að eyða 20 mínútum í ítarlega úttekt á leiknum sem síðan strokaðist út og engar endurheimtur náðust. Þar af leiðandi er þetta stutt og hnitmiðað.
Lazar Trifunovic fór mikinn í leiknum í kvöld (mynd: vf.is)