Sigur gegn vængbrotnu Kr-liði
Keflavíkurstúlkur lögðu KR-stúlkur fyrr í kvöld, en þær síðarnefndu voru með vængbrotið lið. Þær léku án Hildar Sigurðardóttur og Köru Sturludóttur. Lokatölur voru 92-49.
Af karfan.is:
Fólk átti allt eins von á ágætis leik í Keflavík í dag en fljótlega kom í ljós að KR stúlkur voru einfaldlega ekki með hausinn á réttum stað og auk þess sem liðið sár saknaði sinna tveggja máttarstólpa í liðið en þær Kara Sturludóttir og Hildur Sigurðardóttir eru báðar meiddar eftir ökklasnúning.
Keflavík tók öll völd á vellinum nánast strax á fyrstu mínútu. Þær pressuðu KR konur stíft í fyrri hálfleik sem skilaði þeim auðveldum körfum. Í hálfleik voru Keflavíkurstúlkur þá þegar komnar í 20 stiga forskot og héldu þær áfram að þjarma að gestum sínum þangað til að það var komin 40 stiga munur en þá virtist einbeitning þeirra skrika til á tímum en aldrei svo mikið að sigurinn hafi verið í hættu.
Allar stelpurnar í Keflavík skoruðu stig, en Jackie Adamshick var atkvæðamest að vanda með 30 stig og 15 fráköst eftir einungis 30 mínútna spil. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 14 stig og hirti 15 fráköst. Hjá KR var Helga Einarsdóttir með 18 stig og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með 14.