Sigur hjá 8. flokki kvenna á Ísafirði
Stelpurnar í 8.flokki kvenna lögðu land undir fót um helgina og skelltu sér á Ísafjörð. Það var mikil spenna í hópnum þegar lagt var af stað frá Flugvellinum í Reykjavík kl. 09:45. Flugið fór misvel í stelpurnar og þjálfarann, en þetta fór allt vel og við lentum heilar á Ísafirði.
Fyrsti leikur dagsins var við UMFG. Stelpurnar spiluðu til úrslita við þær í fyrra og vissum við að um hörkuleik væri að ræða. Leikurinn byrjaði frekar rólega og var staðan eftir fyrsta leikhluta 7-9 UMFG í vil. En svo kom góður kafli hjá Keflavíkurstúlkum í öðrum leikhluta og vorum þær yfir í hálfleik 17-14, eftir það létum þær ekki forystuna af hendi og unnu leikinn 45-37. Stelpurnar voru að spila mjög vel svona miðað við að þetta var fyrsti leikur vetrarins og ekki mikið búið að æfa. Eva Rós var stigahæst með 14 stig, Lovísa 11, Aníta Eva 7, Guðbjörg og Jenný 4, Arna Lind 3 og Berglind Líf 2.
Stelpurnar áttu tvo leik á sunnudeginum. Sá fyrsti var við gestgjafana frá Ísafirði. Stelpurnar voru alls ekki að sýna sínar bestu hliðar. En leikurinn vannst 52-21. Stigahæstar: Eva Rós 17, Lovísa 12, Guðbjörg 8, Aníta Eva 5, Berglind Líf 4, Halldóra Guðrún, Jenný María og Aníta Eva 2.
Seinasti leikur helgarinnar var við KR. Stelpurnar spiluðu mun betur í þessum leik og voru að spila frábæra pressuvörn, eins og sést á lokatölum leiksins, 63-18. Stigahæstar: Eva Rós 19, Lovísa 15, Aníta Eva 11, Arna Lind 8, Jenný María 6 og Berglind Líf 4.
Glæsilegur árangur hjá stúlkunum og óskum við þeim innilega til hamingju sigrana.