Sigur hjá strákunum en tap hjá stelpunum
Karlalið Keflavíkur spilaði sinn fyrsta leik í Iceland Express deildinni í vetur gegn Breiðablik og fór leikurinn fram í Toyota Höllinni. Strákarnir sigruðu leikinn örugglega, en lokatölur voru 96-74 fyrir Keflavík. Rahshon Clark var stigahæstur hjá Keflavík með 28 stig, en á eftir honum kom Hörður Axel Vilhjálmsson með 17 stig. Hjá Breiðablik var John Davis með 23 stig, en á eftir honum kom Daníel Guðni Guðmundsson með 14 stig.
Kvennalið Keflavíkur tapaði sínum öðrum leik á tímabilinu gegn Grindavík fyrr í kvöld, en leikurinn fór fram í Toyota Höllinni. Lykilinn að sigri Grindavíkur-stúlkna var án efa góð vörn sem þær spiluðu á köflum, en Keflavíkur-stúlkur áttu lítil svör við henni. Lokatölur urðu 54-67 fyrir Grindavík. Viola Beybeyah var atkvæðamest hjá Keflavík með 21 stig, en Birna Valgarðsdóttir kom þar á eftir með 18 stig. Samanlagt skoruðu þær tvær því 39 stig af 54 hjá Keflavíkur-liðinu. Hjá Grindavík var Michele DeVault atkvæðamest með 24 stig, en á eftir henni kom Petrúnella Skúladóttir með 17 stig.
Strákarnir mæta Stjörnunni mánudaginn 19. október klukkan 19:15 á heimavelli Stjörnunnar.
Stúlkurnar eiga sinn næsta leik gegn Vals-stúlkum, en leikurinn fer fram þriðjudaginn 20. október klukkan 19:15.
Allir hvattir til að mæta og styðja við bakið á liðunum!