Fréttir

Karfa: Karlar | 14. febrúar 2011

Sigur hjá strákunum í framlengdum leik

Keflvíkingar sóttu mikilvægan útisigur í kvöld þegar þeir sóttu Hauka heim í Hafnarfjörðinn. Leikurinn fór í framlengingu, en þar höfðu okkar menn betur og sigruðu 99-106.

Keflvíkingar komu sterkir til leiks og ætluðu að láta finna fyrir sér. Þeir náðu 3-13 forystu eftir nokkrar mínútur, en leyfðu þá Haukamönnum að komast fullmikið inn í leikinn aftur. Staðan í hálfleik var 38-46 fyrir Keflavík.

Keflvíkingar héldu dampi í seinni hálfleik og juku forskot sitt hægt og bítandi. Þeir náðu mest 19 stiga forskoti þegar 4. leikhluti var stutt á veg kominn. Útlit var fyrir þægilegan sigur, en Haukar voru þó ekki af baki dottnir. Þeir settu í lás í vörninni og fóru að hitta vel úr skotum sínum. Svo fór að þegar tæp mínúta var eftir af leiknum, þá voru Haukar búnir að jafna leikinn 85-85 og allt gat gerst. Þeir áttu svo boltann þegar um 20 sekúndur voru eftir, en Semaj Inge rann til á gólfinu og fékk dæmt á sig skref þegar rúmar 3 sekúndur voru eftir. Keflvíkingar tóku leikhlé og það kom í hlut Magga Gun að taka síðasta skotið sem geigaði og leikurinn í framlengingu. Í framlengingunni voru Keflvíkingar einfaldlega sterkari og lönduðu góðum sigri 99-106.

Hjá Keflavík var Thomas Sanders atkvæðamestur með 25 stig, en Sigurður Þorsteinsson skoraði 24 og hirti 13 fráköst. Gunnar Einarsson skoraði 20 stig.

Hjá Haukum var Semaj Inge öflugur, en hann skoraði 32 stig og hirti 15 fráköst. Gerald Robinson skoraði 20 stig og tók 11 fráköst.

Keflvíkingar sitja um þessar mundir í 3. sæti deildarinnar með 26 stig. 4 leikir eru eftir á tímabilinu og 8 stig þar af leiðandi í pottinum. Næsti leikur er í Ljónagryfjunni gegn Njarðvík þann 24. febrúar. Svo heimaleikur gegn KFÍ, útileikur gegn Tindastól og lokaleikurinn er heimaleikur gegn Grindavík þann 10. mars. Mjög mikilvægir leikir ef Keflavík ætlar að afla sér heimavallarrétt í úrslitakeppninni.

 

Thomas Sanders skoraði 25 stig í kvöld (mynd: karfan.is)