Sigur í lokaleik ársins gegn Hamar
Keflvíkingar fóru á kostum í kvöld þegar þeir lögðu Hamar í Hveragerði 74-103. Þetta var jafnframt lokaleikur liðsins á árinu og var við hæfi að taka hann með trompi til þess að halda í við toppliðin þrjú, sem eru þó einungis tveimur stigum á undan Keflavík. Keflvíkingar komust yfir á fyrstu sekúndum leiksins og héldu forystunni jafnt og þétt út allan leikinn. Leikurinn þróaðist þannig að Keflavík var alltaf 10-20 stigum á undan Hamar, en þeir áttu fá svör við góðum leik Sigga Stóra. Staðan í hálfleik var 32-43 fyrir Keflavík.
Hjá Keflavík átti Sigurður Þorsteinsson flottan leik, en hann skoraði 23 stig, tók 21 frákast og varði 6 skot. Jafn honum í stigum var Hörður Axel Vilhjálmsson með 23 stig. Hjá Hamar var Andre Dabney atkvæðamestur með 25 stig, en á eftir honum kom Marvin Valdimarsson með 14 stig.
Það sem af er árinu hefur strákunum tekist að sigra 8 leiki af 11 og eru þeir í 4. sæti deildarinnar með 16 stig, en Stjarnan Njarðvík og KR hafa öll 18 stig eftir jafnmarga leiki. Næsti leikur hjá þeim verður háður sunnudaginn 10. janúar, en þá fara þeir í Kópavog þar sem þeir mæta Breiðablik.
Áfram Keflavík!