Fréttir

Karfa: Karlar | 18. mars 2010

Sigur í lokaleiknum - Leikjamet hjá Gunna Einars

Keflavík sigraði Hamar í lokaleik Iceland Express deild karla í kvöld, en lokatölur leiksins voru 107-100. Keflvíkingar áttu í miklu basli með Hamarsmenn fyrstu þrjá leikhluta leiksins, en það var ekki fyrr en undir lok 3. leikhluta að eitthvað líf færðist í Keflavíkurliðið. Þeir leyfðu Hamarsmönnum að komast upp með margt inni í teig og voru á köflum mjög andlausir í leik sínum. Staðan í hálfleik var 47-45. Eins og fyrr segir var það ekki fyrr en undir lok 3. leikhluta og í byrjun 4. leikhluta að Keflvíkingar sýndu sitt rétta andlit. Þeir náðu að komast yfir með 21 stigi í síðasta leikhluta en Hamarsmenn náðu að saxa all hressilega á forskotið undir lok leiksins og skoruðu 17 stig á móti 4 hjá Keflavík á síðustu þremur mínútum leiksins.

Hjá Keflavík var Uruele Igbavboa með flottan leik og er strákurinn heldur betur að sanna sig inni á vellinum, hann skoraði 19 stig og tók 11 fráköst. Draelon Burns skoraði 18, Hörður Axel 17 og Gunnar Einarsson 11. Hjá Hamar var Andre Dabney með 38 stig og Marvin Valdimarsson var með 29.

Það voru tímamót hjá Gunnari Einarssyni í kvöld, en honum tókst með leik sínum í kvöld að slá met þjálfara síns, Guðjóns Skúlasonar. Þetta var hans 751. leikur fyrir Keflavík og er hann þar af leiðandi leikjahæsti leikmaður Keflavíkur í körfubolta frá upphafi. Hann spilaði fyrsta leik sinn 1993-1994 tímabilið hjá Keflavík og skoraði 2 stig í þeim leik. Hann hefur alla sína tíð leikið með Keflavík, en hann hóf ferilinn 16 ára gamall og fagnar 33 ára afmæli í ár. Nú er bara að sjá hvort að Guðjón Skúlason þjálfari hans fyllist bræði og setji sjálfan sig reglulega á leikskýrslu liðsins í næstu leikjum. Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur óskar Gunnari til hamingju með árangurinn og vonandi mun hann bæta hressilega við leikjafjöldann á komandi misserum.

Nú er hins vegar ljóst að Keflvíkingar mæta Tindastól í 8-liða úrslitum. Úrslitakeppnin hefst á fimmtudaginn í næstu viku (25. mars) og á morgun verður ljóst hvaða lið munu spila 1. leik sinn á fimmtudeginum. Föstudagurinn 26. mars verður einnig leikdagur í 1. leik hjá einhverjum liðum.

Gunnar Einarsson með Einari syni sínum og stjórnarmanninum Þorsteini Ragnarssyni og Margeiri Margeirssyni framkvæmdarstjóra Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur. VF-myndir/Páll Orri og Páll Ketils.