Sigur í spennuleik á króknum
Keflvíkingar mættu Tindastólsmönnum fyrir Norðan í kvöld, en leikurinn var afar jafn og spennandi. Úrslitin réðust ekki fyrr en í lokaskoti leiksins frá Tindastól, sem geigaði, og Keflvíkingar fögnuðu sigri 92-94.
Mikið jafnræði var með liðunum í kvöld. Fá stig skildu liðin að út leikinn, en það var ekki fyrr en rúmar 7 mínútur voru eftir af leiknum að Keflvíkingar virtust ætla að landa sigri, en þeir áttu góða rispu og náðu 9 stiga forskoti og útlit fyrir að Tindastólsmenn höfðu gefist upp. Stólarnir komu þó til baka og sýndu mikla baráttu. Magnús Gunnarsson fór á vítalínuna þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum og setti niður 1 af 2 vítum. Tindastólsmenn keyrðu í sókn og náðu einu 3ja stiga skoti sem geigaði og Keflavík dansaði sigurdans.
Thomas Sanders var atkvæðamestur hjá Keflavík með 24 stig. Maggi Gunn og Siggi Þorsteins voru með 15, Andrija Ciric 14 og Hörður Axel 11.
Eins og staðan í deildinni er í dag, þá eru KR, Keflavík og Grindavík jöfn að stigum. Keflvíkingar fá Grindvíkinga í heimsókn á fimmtudaginn, en KR-ingar fá Snæfellsmenn í heimsókn. Það mun því ráðast í lokaleik þessara liða í deildinni hvaða lið hreppir 2-4 sæti. Hvetjum alla Keflvíkinga til að láta sjá sig í Toyota Höllinni á fimmtudaginn, en leikurinn hefst kl. 19:15. Liðið þarf á ykkar stuðning að halda!
Áfram Keflavík!
Thomas Sanders skoraði 24 stig í kvöld