Sigurður Ingimundarson endurráðinn þjálfari meistaraflokks karla
Við lok síðustu leiktíðar rann út samningur körfuknattleiksdeildarinnar við þjálfarann sigursæla, Sigurð Ingimundarson. Leiktíðin var hans sjöunda í röð og árangurinn stenst allar kröfur, þrisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar Bikarmeistari, þar að auki fjórum sinnum Kjörísmeistari. Stjórnin komst auðveldlega að þeirri niðurstöðu að Sigurður væri efstur á óskalistanum fyrir næstu leiktíð. Menn settust því niður og ræddu málin í nokkur skipti og fljótlega kom í ljós að áhuginn var gagnkvæmur. Báðir aðilar vildu þó aðeins hvíla sig á körfuboltamálum og því liðu nokkrar vikur án þess að ákvörðun var tekin.
Um síðustu helgi fóru menn síðan saman í golf og gengu frá málum, þannig að allri óvissu hefur verið eytt – Sigurður mun þjálfa Keflavíkurdrengi á næstu leiktíð. Stjórnin er ánægð yfir því að samningar tókust og veit vel að metnaður og reynsla Sigurðar á eftir að leiða okkur til góðra afreka á komandi leiktíð sem verður hans áttunda með liðið. Enginn starfandi þjálfari í stóru boltagreinunum, handbolta, fótbolta eða körfubolta, hefur verið líkt eins lengi hjá sama liðinu og Sigurður og lýsir það best traustinu sem til hans er borið.
Og nú er bara að bretta upp ermar og takast á við næstu áskorun, nefnilega að verja eitthvað af þeim titlum sem komu í hús á síðastliðnum vetri.