Fréttir

Sigurður Ingimundarson þjálfar kvennaliðið
Karfa: Konur | 21. apríl 2014

Sigurður Ingimundarson þjálfar kvennaliðið

Sigurður Ingimundarson skrifaði í dag undir samning við Keflavík þess efnis að hann muni þjálfa meistaraflokk og unglingaflokk kvenna til næstu tveggja ára. Sigurð þarf ekki að kynna fyrir Keflvíkingum enda sigursælasti þjálfari félagsins frá upphafi auk þess að vera sigursælasti þjálfari íslensks körfubolta.

Sigurður þjálfaði kvennalið félagsins síðast tímabilið 2012-2013 en þá vann liðið alla titla sem í boði voru. Líkt og ávallt eru miklar vonir bundar við kvennalið Keflavíkur og telur stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur að með ráðningu Sigurðar sé kominn rétti aðilinn til að stýra hinu gríðarlega unga liði upp á næsta þrep. Þegar hafa samningar náðst við flesta þá leikmenn sem spiluðu með liðinu á nýliðnu tímabili auk þess sem búast má við að nokkrar ungar og upprennandi stjörnu félagsins láti meira til sín taka á næsta tímabili en af nógu er víst að taka í ótæmandi brunni kvennastarfs félagsins. Þá hefur liðsstyrkur verið sóttur í Hveragerði með því að klófesta eina sterkustu frákastadrottningu Domino´s deildarinnar, Marínu Laufey Davíðsdóttur.

Mynd: Í tilefni undirritunar samningsins í dag þótti tilefni til að splæsa í fyrstu "samningsselfie" myndina í íslenskum körfubolta en á myndinni eru Sigurður Ingimundarson, Falur Harðarson, formaður KKDK, og Sævar Sævarsson, varaformaður KKDK.