Fréttir

Karfa: Konur | 13. nóvember 2008

Sigurganga Hamarstelpna stöðvuð

Keflavík sigraði Hamar í gær í Iceland Express-deild kvenna.  Lokatölur leiksins voru 76-90 Keflavík í vil þar sem Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir var með 21 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar

Karfan.is náði tali af Jóni Halldóri Eðvaldssyni þjálfara Íslandsmeistara Keflavíkur sem í kvöld stöðvuðu sigurgöngu Hamars í Iceland Express deild kvenna. Lokatölur í Hveragerði voru 76-90 Keflavík í vil.

,,Við fundum villidýrið í okkur,“ sagði Jón Halldór í samtali við Karfan.is. ,,Það varð ákveðin hugarfarsbreyting hjá okkur því við höfum ekki verið sannfærandi á tímabilinu nema í einum góðum hálfleik gegn Snæfell um daginn. Að öðru leyti höfum við ekki spilað betur í vetur. Við fórum að láta sóknina flæða betur hjá okkur og taka skynsamar ákvarðanir og það réði úrslitum,“ sagði Jón Halldór sæll með sigur Keflavíkur.

Hvernig líst þér á baráttuna fyrir fjögur efstu sætin í deildinni?

,,Það er brjáluð barátta um þennan A-hluta og ég sé ekki á þessum tímapunkti hvað lið það verða sem skipa þessi fjögur sæti. Eins og úrslit kvöldsins gefa kannski til kynna þá eru leikirnir í deildinni í vetur ekki sjálfgefnir og það er eitthvað sem er skemmtilegt og það sem allir vilja sjá.!“

Jón Halldór sagði að Hamarskonur hefðu ekki unnið fyrstu fimm leikina á eintómum grís og að þær væru með virkilega gott lið. ,,Hamar er með fínt lið og tvo erlenda leikmenn. Við munum samt ekki bæta við okkur erlendum leikmönnum en ég get ekki talað fyrir önnur lið í deildinni. Við spilum bara á okkar stelpum og það gengur vel. Ég sé ekki tilganginn í því að kaupa erlenda leikmenn og setja deildirnar í skuldahala,“ sagði Jón en hvaða fréttir hefur hann að færa af landsliðskonunni Bryndísi Guðmundsdóttur sem hefur ekki verið með í síðustu leikjum? Bryndís sleit krossbönd í fyrra og lék aðeins fjóra leiki með Keflavík en verður hún eitthvað meira með í vetur?

,,Bryndís verður ekki meira með á næstunni. Hún var aðeins með okkur í upphafi og það sást að hún var ekki tilbúin. Eins og staðan er í dag á ég ekki von á því að hún komi eftir áramót en það gæti vel breyst svo við sjáum hvað setur,“ sagði Jón en aðspurður um hvort Íslandsmeistaralið Keflavíkur frá því í fyrra væri nú mætt til leiks svaraði Jón:

,,Já, það er klárt!“