Fréttir

Karfa: Konur | 1. mars 2012

Skellur hjá stelpunum gegn Val - Shanika út og Eboni inn

Keflavíkurstúlkur riðu ekki feitum hesti í gærkvöldi þegar þær skelltu sér í Vodafone Höllina og mættu Valsstúlkum í Iceland Express deild kvenna. Lokatölur leiksins voru 88-53 fyrir Val.

Fyrir leikinn lá það ljóst fyrir að Keflavík myndi ekki nýta sér lengur liðsstyrk Shanika Butler, en hún hefur verið langt undir væntingum liðsins í þeim leikjum sem hún hefur spilað. Hennar skarð mun Eboni Mangum fylla. Eboni þessi spilaði með TCU háskólanum í Texas, m.a. með Helenu Sverrisdóttur. Hún mun vonandi verða sá liðsstyrkur sem Keflavíkurliðið hefur verið að leita sér af í lokaátökum Iceland Express deildarinnar.

Leikurinn í gærkvöldi var algjörlega í höndum Valsara og komust þær í 9-0 eftir einungis eins og hálfs mínútna leik. Þrátt fyrir að Keflavík hafi að lokum náð að setja knöttinn niður, þá var spilaðist leikurinn einfaldlega á þann veg að Valsstúlkur eignuðu sér völlinn og klikkuðu nánast ekki úr skoti. Staðan í hálfleik var 51-26 og súrealísk upplifun fyrir Íslandsmeistara Keflavíkur staðreynd.

Keflavíkurstúlkur klóruðu þó aðeins í bakkann í 3. leikhluta og náðu muninum niður í 15 stig. Sú vinna fór þó algjörlega forgörðum í 4. leikhluta þegar Valsstúlkur brýndu klærnar og skoruðu 24 stig gegn 9 hjá Keflavík. Svekkjandi niðurstaða fyrir Keflavík og vonandi eitthvað sem hægt er að læra af. Lokatölur 88-53 eins og fyrr segir.

Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir atvæðamest með 21 stig. Mikið munaði um Jaleesu Butler, en hún skoraði einungis 11 stig en hirti 15 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 9 stig.

Njarðvíkurstúlkur sækja nú hart að fyrsta sætinu í Iceland Express deild kvenna, en Keflavík situr í efsta sæti deildarinnar með 38 stig og Njarðvík í öðru sæti með 36 stig.

 


Eboni Mangum