Skyldusigur gegn lánlausu Valsliði - Stutt viðtal við Arnar Frey
Keflvíkingar unnu sannfærandi, 76-94, sigur á Valsmönnum í fjórðu umferð Domino´s deidlar karla í gærkveldi en leikurinn fór fram í Vodafonehöllinni. Heimamenn voru sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta og svo virtist sem örlítið kæruleysi einkenndi leik gestanna. Um miðjan annan leikhluta tóku Keflvíkingar handbremsuna af og um leið í annan gír var komið var forystan orðin um tíu stig. Meira þurfti ekki, Keflvíkingar flökkuðu milli annans og þriðja gírs út leikinn og innbyrtu að lokum öruggan 18 stiga sigur.
Michael Craion skilaði tölfræði sem fengi Óskar Ófeig á Vísi til að hitna um sig miðjan en hann skoraði 21 stig og tók 21 frákast á 28 mínútum. Darrel Lewis setti 16 stig, Þröstur Leó og Gunnar "frændi" Ólafsson settu 9 stig hvor og þá gaf Valur Orri 10 stoðsendingar. Að lokum er vert að geta framlags Arnars Freys Jónssonar en hann gerði sig dælt við 20 stigin, setti 19 stig ásamt því að gefa 6 stoðsendingar. Aðspurður hvort hann væri að finna sitt gamla form svaraði Arnar því til að hann væri á réttri leið; "En ég hef samt verið að lenda í smá hnjaski núna í byrjun tímabils, meiddist á hné á móti KR, fór úr lið á þumalputta auk þess að brjóta rifbein í sumar. Þetta hefur hægt aðeins á mér en maður finnur bara lausn á því vandamáli."
Leikurinn gegn Val byrjaði frekar rólega af ykkar hálfu en svo náðu þið forskotinu og hélduð því út leikinn. Var um kæruleysi að ræða þar sem þetta var hálfgerður skyldusigur?
Það er alltaf erfitt að gíra sig upp í svona leiki og sérstaklega eftir Njarðvíkurleikinn. Þá er skrítið andrúmsloft þegar maður spilar í Valshúsinu, allt of stórt hús fyrir nokkrar hræður upp í stúku.
Nú er liðið taplaust eftir fjórar umferðir, hvað getur þessi sigurganga haldið áfram lengi?
Við förum í alla leiki til að vinna þá og það er ekkert að fara að breytast. Ef við gerum það og spilum okkar bolta þá verður erfitt að vinna okkur.
Hvernig kanntu við Keflavíkurliðið í ár, nýju leikmennina og nýja þjálfarann?
Ég kann vel við alla karakterana í liðinu sem maður þarf að hafa til þess að vinna titla. Nýju strákarnir eru að standa sig vel og smellpassa inn í þetta hjá okkur. Þjálfarinn er bara algjör snillingur og þær áherslur sem hann er með og hvernig hann vill að við spilum leikinn er að virka vel.
Hver er helsti munurinn á því hvernig liðið kemur til leiks í ár miðað við undanfarin ár?
Erfitt að segja. Þetta undirbúningstímabil var frekar skrítið því það var mikið um leiki og rólegar æfingar til að koma mönnum inn í kerfin og leikskipulagið. Það munar kannski aðallega að álagið er minna, spilatíminn dreifist meira á menn þannig að við komum alltaf ferskir til leiks.
Að lokum, megum við eiga von á fleiri leikjum frá þér í vetur þar sem þú daðrar við 20 stigin?
Stig hafa aldrei skipt mig miklu máli og ef ég gæfi 10 stoðsendingar væri ég eiginlega sáttari og auðvitað að liðið vinni. Í gær þurfti ég eiginlega bara að skora og maður gerir bara það sem maður þarf að gera til að vinna leikina!
Mynd: Úr leik Keflavíkur og Stjörnunnar frá því í 8-liða úrslitum síðasta tímabils. Myndin er fengin af vef Víkurfrétta, www.vf.is, en þar er ávalt að finna flotta og vandaða umfjöllun um íþróttir á Suðurnesjum auk mikils úrvals mynda.