Slæm byrjun og 29 stiga tap staðreynd
Keflavík tapaði fyrir Mlekarna í kvöld með 19 stiga mun 78-107. Leikmenn virtust ekki vera með á nótunum í byrjun leiks og náðu sér aldrei almennilega á strik. Í raun var fyrri hálfleikur algjör hörmung enda skoruðum við aðeins 27 stig sem er það allra lakasta sem sést hefur í Sláturhúsinu. Magnús Þór Gunnarsson reyndi hvað hann gat til að kveikja í liðinu í seinni hálfleik, skoraði 26 stig og m.a þrjá þrista í röð. Minnstur var munurinn 12 stig en Tékkarnir settu þá aftur í fluggír og skoruðu margar auðveldar körfur.
Það verður ekki tekið að Mlekarna að það er eitt það besta sem spilað hefur í Keflavík. Það var vitað fyrir leikinn enda tapaði Keflavík úti með 33 stigum. Tékkarnir eru með 7 leikmenn sem eru 200 cm. eða meira en leikmenn liðsins eru samt gríðalega fljótir. Þeir hitta vel fyrir utan ( 43 % ) og besti maður liðsins Króatinn Ivan Perincic (206 cm. ) er góð skytta og var með þrjá þrista í gær. Einnig er Chad Timberlake frábær leikmaður og einn sá besti sem spilað hefur í Sláturhúsinu. Fór létt með að blokka Thomas undir lok leiks en hann setti niður 23 stig í gær og var með 9 fráköst.
Keflavíkurliðið var einfaldlega ekki að virka í gær og til þess að sigra leikinn hefðum við þurft toppleik og brjálaða áhorfendur. Þeir mætti því miður ekki vel á leikinn og slíkt áhugaleysi getur smitað út frá sér, þó ekki sé það afsökun fyrir slæmu tapi.
Einnig verður að minnast á að Jón Norðdal var ekki með í gær vegna meiðsla en hann hefur spilað vel að undanförnu. Jermain Willams meiddist einnig strax í byrjun leiks og það var svo sannalega skarð fyrir skildi því hann náði aðeins að skila 2 stigum í hús. Nokkrir lykilmenn fundu sig einnig alls ekki í leiknum s.s Gunnar sem var aðeins skugginn af sjálfum sér og Arnar Freyr sem var í erfiðleikum mest allan leikinn. Thomas átti ekki sinn besta dag og 3 fráköst frá honum er allt of lítið, en Keflavíkurliðið var aðeins með 33 fráköst í leiknum öllum.
Það bjarta í leiknum var þó að Maggi sýndi gamla góða takta og átti stórleik í seinni hálfleik.
Næsti leikur er á sunnudaginn gegn Tindastól á Sauðuarkróki og næsti Evrópuleikur er í Úkraínu gegn Dnipro 7. des. Það ferðalag verður langt og strangt því ferðin hefst á þriðjudagsmorgun og verða notaðar fjórar flugvélar á leiðinni út.
Áfram Keflavík